Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Ótta. Annar Óðinsdagur í Tvímánuði
Auglýsing
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Á að fækka þrepum virðisaukaskatts? (Er í dag 0%, 7% og 25,5%)
Blaðið
Smáauglýsingar

Ódýr herbergi til leigu í vetur í Borgarfirði

Höfum nokkur einstaklingsherbergi til leigu í vetur. Í hverju herbergi er gott rúm, skápur, sjónvarp...
Færð á vegum
Kjalarnes 04:20  A 2  8°C
Akrafjall 04:20  SA 2  9°C
Hafnarfj. 04:20  SSA 3  8°C
Vatnaleið 04:20  SA 3  6°C
Hraunsm. 04:20  ASA 4  8°C
Fróðárh. 04:20  ASA 2  5°C
Brattabr. 04:20  S 1  5°C
Holtav.h. 04:20  S 4  5°C
Laxárd.h. 04:20  A 2  5°C
Svínad. 04:20  SA 1  5°C
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
Hagnaður Spalar eftir skatta var um 179 milljónir króna fyrstu sex mánuði ársins en um 120 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri fyrir fyrri helming þessa árs sem birtur er hjá Kauphöllinni. Hagnaður Spalar á öðrum ársfjórðungi 2014 eftir skatta var um 140 milljónir króna en um 110 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Í afkomutilkynningunni segir að greiðsluflæðið gefi betri mynd af gangi félagsins vegna þess að verðbætur vísitöluhækkana lána dreifast til greiðslu út lánstímann árið 2018. Þar kemur einnig fram að greiðslugeta félagsins hafi verið góð undanfarin sex ár. Tekjur af veggjaldi námu 525 milljónum króna á fyrri helmingi árs 2014 en voru 508 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Rekstur Spalar ehf kostaði 164 milljónir króna á fyrri helmingi árs 2014 en 177 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Afskriftir á tímabilinu voru 59 milljónir króna, sama upphæð og í fyrra. Vaxtagjöld, verðbætur og gengismunur lækkuðu um 43 milljónir króna fyrstu sex mánuði ársins 2014 frá sama tímabili í fyrra. Skuldir Spalar hafa aukist í ár um 145 milljónir króna. Þær námu 3.473 milljónum króna í lok árs 2013 en 3.618 milljónum króna um mitt ár 2014. Skýringin er einkum verðbreyting lána og áfallnir vextir af langtímalánum. Gert er nú ráð fyrir því að umferð í göngunum verði heldur meiri í ár en á síðastliðnu rekstrarári og að tekjur muni einnig skila sér betur en ætlað var.
Kári frá Akranesi sigraði KH 4:0 þegar liðin mættust í fyrri útslitaviðureign liðanna í 8-liða úrslitum 4. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu í Akraneshöllinni sl. laugardag. Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleiknum og það var ekki fyrr en í seinni hálfleik sem markaskorarar Kára létu að sér kveða. Marinó Hilmar Ásgeirsson skoraði fyrsta markið þegar um stundafjórðungur var liðinn af seinni hálfleiknum og síðan bættu þeir við mörkum; Kristófer Daði Garðarsson, Sverrir Mar Smárason og Páll Sindri Einarsson. Með Kára leika margir leikmenn 2. flokks ÍA sem daginn fyrir leikinn við KH á laugardaginn sigruðu sameiginlegt lið Keflavíkur og Njarðvíkur í undanúrslitum bikarkeppni 2. flokks og mun því spila til úrslita í keppninni. Seinni leikur KH og Kára er á dagskrá á Hlíðarendavelli í Reykjavík í dag klukkan 17:30. Staða Kára er sterk fyrir leikinn en samanlögð útkoma úr leikjunum tveimur ræður því hvort liðið fer í fjögurra liða úrslitin þar sem keppt verður um tvö sæti í 3. deild á næstu leiktíð.
Auglýsing
Forsvarsmenn Íslandspósts halda opinn fund næstkomandi miðvikudag í Borgarnesi í fundaröð um stöðu og framtíð póstmála á Íslandi. „Skoðun landsmanna á póstmálum er mjög mikilvæg fyrir fyrirtækið. Vonast er til að sem flestir mæti og taki þátt í umræðum um hvernig póstþjónusta framtíðarinnar eigi að líta út. Fundurinn verður haldinn í Landnámssetrinu, Brákarbraut 13-15, miðvikudaginn 3. september klukkan 17:00-18:30,“ segir í tilkynningu.
Akraneskaupstaður tekur í notkun nýja heimasíðuÍ morgun var tekin í notkun ný heimasíða hjá Akraneskaupstað. Með henni gefst Akurnesingum nú kostur á að vera í meiri samskiptum við stjórnsýsluna en áður og nálgast til dæmis rafræn umsóknareyðublöð. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri segir helstu kosti nýrrar síðu að hún sé aðgengilegri en sú gamla, til dæmis sé hægt að breyta stillingum fyrir sjónskerta og hægt er að skoða hana í síma og spjaldtölvum. Þá sé unnt að framkvæma á síðunni einfaldar skoðanakannanir. Íbúagátt á síðunni geri einfaldara fyrir fólk að fylgjast með stöðu umsókna og senda skilaboð. Bæjarstjórn Akraness samþykkti fyrir um það bil ári að fara í gagngerar endurbætur á heimasíðunni. Á fundi bæjarráðs 24. júlí síðastliðinn var ákveðið að opna ennfremur íbúagátt til að auka aðgengi að stjórnsýslu bæjarins. Til þess að komast í íbúagáttina þarf að notast við innskráningarkerfi Íslykils. Það er gert með því að slá inn kennitölu í valdan reit á síðu íbúagáttarinnar og fær notandi þannig sent lykilorð í heimabankann sinn, sé hann ekki nú þegar með Íslykil. Góðar leiðbeiningar fylgja á síðu íbúagáttarinnar en einnig geta notendur hennar leitað eftir aðstoð hjá Akraneskaupstað. Það er Sædís Alexía Sigurmundsdóttir verkefnastjóri sem hefur stýrt undirbúningsvinnu við gerð nýrrar heimasíðu í samstarfi við fyrirtækið Stefnu sem hannaði nýju síðuna. Íbúagáttin er hluti af skjalavistunarkerfinu One og er það fyrirtækið One systems sem heldur utan um gáttina. Í tilkynningu frá Akraneskaupstað segir að með opnun íbúagáttarinnar sé tekið stórt skref í rafrænni þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra er ætlunin að halda áfram á þessari braut og er markmiðið að sem flestar umsóknir bæjarfélagsins séu aðgengilegar í gegnum íbúagáttina og ennfremur er unnið að innleiðingu rafrænna reikninga. Áætlaðar kostnaður við gerð heimasíðunnar var tvær milljónir króna og síðan var í sumar samþykkt 650 þúsund króna viðbótarframlag vegna íbúagáttarinnar.
Auglýsing
Hiti var í meðallagi í ágústTíðarfar í nýliðnum ágústmánuði var hagstætt víðast hvar á landinu. Lengst af var hlýtt á landinu nema fyrstu daga mánaðarins og meðalhiti nærri meðaltali ágústmánaða síðustu tíu ára en þeir hafa í langtíma samhengi verið óvenjuhlýir. Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að úrkoma í mánuðinum hafi lengst af verið talsvert minni en að meðaltali um mestallt land, en þó um eða yfir því austan til á landinu. Óvenjumikil úrkoma síðasta dag mánaðarins varð þó til þess að rétta stöðuna gagnvart meðallaginu verulega. Í Stykkishólmi var meðalhiti júlímánaðar 10,9 gráður eða 1,3 stigum ofan meðaltals 1961 til 1990 en í meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti í Reykjavík var 11,4 stig og er það 1,2 stigum ofan meðaltals áranna 1961 til 1990 og í meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 10,9 stig sem er 0,9 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, en í meðallagi síðustu 10 ára.
Gáfu sér Íslandsferð í afmælisgjöf og munu syngja í ReykholtiNorski kórinn Hemne og Vinje Songlag verður á ferð um suðvesturhorn landsins dagana 4. – 8. september. Hann mun halda stutta tónleika í Reykholtskirkju föstudaginn 5. september og hefjast þeir kl. 12:45. Þeir eru haldnir í samstarfi við grunnskólann og munu nemendur skólans mæta til að hlusta á lög eftir Thorbjørn Egner og fleiri norska höfunda. Aðgangur er ókeypis og vonast kórinn til að sem flestir geti séð sér fært að mæta í Reykholtskirkju. Hemne og Vinje Songlag er blandaður kór 47 áhugasöngmanna. Aðsetur hans er sveitarfélagið Hemne, sem er vestast í Suður-Þrændalögum. Þar stendur bærinn Kyrksæterøra við Hemnefjord, en heitið útleggst Hafnarfjörður á íslensku. Nær allir kórfélagar taka þátt í ferðinni. En hvers vegna Ísland og þá sérstaklega Reykholt? Björn Leifsson verður fyrir svörum en hann starfaði eitt sinn við Tónlistarskólann í Borgarnesi. Björn er stjórnandi norska kórsins: „Kórinn hélt upp á 25 ára afmæli sitt í fyrrahaust, og var samþykkt á aðalfundi kórsins að gefa sér fimm daga Íslandsferð i afmælisgjöf. Ekki kom annað til greina en að skoða Reykholt í Borgarfirði, en Norðmenn halda mikið upp á Snorra Sturluson og Heimskringlu. Það er haft fyrir satt að konungasögur hans hafi átt stóran þátt í að norska þjóðin stefndi á sjálfstæði og hlaut það frá Svíum árið 1905,“ segir Björn. Um aðdraganda þess að Björn tók við norska kórnum segir hann: „Vegna forfalla fyrrverandi kórstjóra haustið 2011 var farið á stúfana að leita að forfallastjórnanda. Þar á meðal var leitað til organista kirkjunnar í Hemne, en ég var þá nýfluttur þangað. Síðan hef ég stjórnað kórnum.“ Björn stjórnaði meðal annars Samkór Mýramanna þegar hann bjó í Borgarnesi.
Vetraráætlun Strætó á Vestur- og Norðurlandi tekur gildi 14. september. „Litlar breytingar verða frá síðasta vetri, en þeirri tilhögun verður við haldið að leið 57 stöðvi í Staðarskála í hálftíma. Þessu var komið á í sumar og gaf góða raun. Helstu breytingar eru þessar: Á Leið 57 verður flýtt um fimm mínútur fyrstu tveimur ferðum á virkum dögum frá Borgarnesi til Reykjavíkur. Stoppað verður í hálftíma í Staðarskála eins og gert var í sumar og því lagt af stað fyrr frá Akureyri á leiðinni til Reykjavíkur og komið seinna til Akureyrar á leiðinni frá Reykjavík. Leiðum 83 og 84 er hnikað til þannig að þær standist á við leið 57,“ segir í tilkynningu frá Strætó. Nánar um leiðakerfið á www.straeto.is
Orkuveitan rekin með tæplega fjögurra milljarða hagnaðiHagnaður Orkuveitu Reykjavíkur á fyrri helmingi ársins 2014 nam 3,8 milljörðum króna en rekstrarhagnaður var 7,5 milljarðar fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði (ebita). Eigið fé OR nemur nú 83,5 milljörðum og hefur meira en tvöfaldast frá árslokum 2009. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að bætta afkomu Orkuveitunnar undanfarin ár megi ekki síst rekja til þess að tekist hafi að lækka útgjöld verulega að raungildi meðan tekjur hafa vaxið. Frá 2010 hafa tekjur á fyrri hluta árs vaxið um u.þ.b. 40%. Tveir áfangar við Hellisheiðarvirkjun hafa verið teknir í notkun á þessu tímabili. „Okkur hefur gengið prýðilega að ná tökum á rekstri Orkuveitunnar og nú sjáum við árangur þess í traustari efnahag fyrirtækisins. Eiginfjárhlutfallið, sem nú er um 30%, hefur vaxið ört eftir því sem batnandi afkoma hefur gert okkur fært að borga niður skuldir. Þar er þó talsvert verk óunnið og við verðum að halda vöku okkar. Tímabil „Plansins“ er nú liðlega hálfnað og árangurinn er umfram markmið. Starfsfólk og stjórnendur Orkuveitunnar munu hér eftir sem hingað til leggja allt kapp á að missa ekki sjónar á markmiðum Plansins um leið og áhersla er lögð á að viðskiptavinir njóti traustrar þjónustu veitnanna,“ segir Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur en Planið sem hann kallar er áætlun sem gerð var á sínum tíma til að ná tökum á fjármálum OR.
Fréttasafn
Leit á vefnum
Auglýsing
Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is