Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Miðaftann. Fimmti Týsdagur í Sólmánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hvað finnst þér verst við mikla rigningu?
Blaðið
Smáauglýsingar

Einbýlishús til leigu

Við leitum að heiðarlegum og reglusömum leigjanda að eigninni okkar. Þetta er glæsilegt 130fm2 4...
Færð á vegum
Kjalarnes 19:10  ASA 6  13°C
Akrafjall 19:10  ASA 4  14°C
Hafnarfj. 19:10  ASA 5  16°C
Vatnaleið 19:10  SA 3  14°C
Hraunsm. 19:00  A 1  16°C
Fróðárh. 19:10  ASA 5  12°C
Brattabr. 19:10  SSV 4  15°C
Holtav.h. 19:10  VSV 5  16°C
Laxárd.h. 19:10  N 2  16°C
Svínad. 19:10  NNV 2  16°C
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
Svo virðist sem smálaxinn sé loks að skila sér í Norðurá í Borgarfirði, en veiði þar hefur verið fremur dauf í sumar. Á síðasta sólarhring fóru 90 laxar í gegnum teljarann í Glanna og þar að auki gekk einhver fjöldi laxa upp fossinn sjálfan eins og jafnan þegar áin hreinsar sig eftir miklar rigningar og vatn er mikið. Síðastliðinn sunnudag var ljósmyndari Skessuhorns á ferð við fossinn og var þá smálaxinn nánast stöðug að reyna uppgöngu í fossinum. Einn og einn stærri lax var einnig á ferðinni. Smálaxinn er einmitt það sem beðið hefur verið eftir og því ætti brúnin að taka að lyftast á veiðimönnum.
Um miðja síðustu viku hófst raforkuframleiðsla í Bugavirkjun á Leirárgörðum í Hvalfjarðarsveit. Magnús Hannesson, bóndi á Eystri-Leirárgörðum, segir að enn eigi þó eftir að fínstilla stjórnstöð virkjunarinnar sem stýri framleiðslunni og það verði auðveldara á næstu dögum þegar ljósleiðaratenging kemst á. Magnús segir að framleiðslan þessa dagana sé um 35 kílóvött en áætlanir gerðu ráð fyrir 40 kílóvatta framleiðslu. Sú orka á að nægja til lýsingar og reksturs á bæjunum á Leirárgörðum. Umframorka verður seld inn á kerfi Rarik og bæirnir á Leirárgörðum fá orku miðlað um netið í báðar áttir verði truflanir á framleiðslu Bugavirkjunar. Eins og greint hefur verið frá í Skessuhorni hófust framkvæmdir við virkjunina síðsumars 2012 og hafa staðið síðan með nokkrum töfum sem urðu á framkvæmdum veturinn 2012-2013, m.a. vegna kærumála sem upp komu. Frá því endanlegt framkvæmdaleyfi var staðfest síðasta vor hefur verið nokkuð stöðugur gangur í framkvæmdum og á þeim tíma m.a. verið byggt stöðvarhús og inntak á aðfallslögn frá stíflunni. Túrbúna virkjunarinnar var keypt frá framleiðandanum Clink Hydro í Tékkóslóvakíu. Raforkuframleiðslan hófst sl. miðvikudag en daginn áður var vatni hleypt í lón virkjunarinnar við Bugalæk, en það er aðeins um einn hektari að flatarmáli. Þá er fallhæð frá stíflu niður í stöðvarhúsið að túrbínu um 36 metrar. Með aflsetningu á Bugavirkjun er að baki margra ára barátta bændanna á Eystri- og Vestari-Leirárgörðum. Þeir voru lengi búnir að hafa augastað á því að virkja Bugalækinn en ýmis ljón voru á veginum til að fá endanlegt samþykki fyrir virkjuninni. Magnús Hannesson á Eystri-Leirárgörðum segir ótrúlegan fjölda leyfa þurfti til að byggja jafn litla vatnsaflsvirkjun og Baugavirkjun er.
Skagakonur eru enn án stiga á botni úrvalsdeildar eftir tap gegn Fylki í Árbænum í gærkveldi. Leikurinn byrjaði rólega en fyrstu tíu mínúturnar voru Fylkiskonur beittari í sínum aðgerðum. Skagakonur vörðust vel og beittu skyndisóknum sem sköpuðu oft vandræði fyrir vörn Fylkis. Jafnræði var með liðunum um tíma en nokkrum mínútum áður en flautað var til leikhlés skoruðu Fylkiskonur. Lítið marktækt gerðist í upphafi síðari hálfleiks. Skagakonur áttu þó tvö ágætis skot á markið en tókst ekki að koma boltanum í netið. Um miðjan seinni hálfleikinn sóttu Fylkiskonur og voru nálægt því að skora annað mark. Eftir þá sókn dró verulega úr hraða leiksins. Bæði lið áttu nokkur marktækifæri undir lokinn en hvorugu tókst að nýta sér það. Eins marks sigur Fylkis því staðreynd. Næsti leikur Skagakvenna er gegn FH á þriðjudaginn í næstu viku á Akranesvelli klukkan 19:15.
Reykhóladagar verða um næstu helgiBæjar- og sveitarhátíðin Reykhóladagar hefst með pompi og prakt nk. fimmtudag og stendur hátíðin fram á helgina, en aðal dagskrárdagar verða að þessu sinni föstudagur og laugardagur. Varla verður annað sagt en dagskrá hátíðarinnar sé allfjölbreytt að þessu sinni. Meðal dagskrárliða á fyrsta degi hátíðarinnar á fimmtudag má nefna miðnæturtónleika með hinni ástsælu hljómsveit Spöðum á Báta- og hlunnindasýningunni. Þetta er í fyrsta skipti sem Spaðar leika á meginlandi Reykhólahrepps en þeir hafa alloft spilað í Flatey við miklar vinsældir. Umsjónarmaður byggðahátíðarinnar Reykhóladaga er Þorkell Heiðarsson og er dagskrá fyrir hátíðina tilbúin. Um hádegisbil bæði á föstudag og laugardag verður boðið til súpu á nokkrum stöðum. Á föstudeginum verður m.a. kassabílarall og þrautabraut hverfanna. Opið hús verður hjá Norðursalti seinnipart dagsins og m.a. keppt í saltpökkun. Spurningakeppni verður síðan í íþróttahúsinu um kvöldið. Á laugardag verður síðan keppt í þarabolta á sparkvellinum, sem og í dráttarvélaakstri og dráttarvélafimi. Um miðjan daginn verður dagskrá við Sjávariðjuna, þar sem fjárrekstur fer fram og rúningur með gamla laginu. Grillveisla verður fyrir yngri kynslóðina og síðan veisla í íþróttahúsinu um kvöldið þar sem leikarinn Halldór Gylfason verður veislustjóri. Að veisluhöldum loknum verður stiginn dans í íþróttahúsinu við undirleik hljómsveitarinnar Kopars. Dagskrá Reykhóladaga lýkur síðan á sunnudag með vatnsboltafjöri í Grettislaug og léttmessu í Reykhólakirkju. Búist er við að gamlir íbúar Reykhólahrepps og nágrennis leggi leið sína á Reykhóladaga og skemmti sér með sínum gömlu sveitungum.
Bæjarhátíðin „Á góðri stund“ í Grundarfirði hefst formlega á morgun fimmtudag og stendur fram á aðfararnótt sunnudags. Þetta er í sextánda sinn sem hátíðin er haldin en núna í ár er haldið upp á 15 ára afmæli hátíðarinnar, enda gleymdist það í fyrra, að sögn Baldurs Rafnssonar sem er meðal þeirra sem unnið hafa að skipulagi hátíðarinnar. Baldur segir að jafnan hafi gamlir Grundfirðingar verið duglegir að koma á hátíðina, en lagt er upp með hana sem hátíð fyrir heimamenn og gesti þeirra og „Á góðri stund“ ekki mikið auglýst núna frekar en vanalega. Eins og jafnan verður hvert hverfi með sínum lit í Grundarfirði hátíðardagana. Hverfaskreytingar verða á fullu á fimmtudag og þann dag býður Samkaup til grillveislu í veislutjaldi. Harmonikkuhljómar verða á grillsvæðinu og um kvöldið munu síðan grundfirskir hljómlistarmenn og -konur leika og hita upp mannskapinn, sem og að Laddi sjálfur sem mun skemmta ungum sem öldnum. Á föstudag verður Opna Soffamótið í golfi á Bárarvelli og seinna um daginn froðugaman fyrir börnin í boði Saltkaupa. Fótboltaleikur verður svo um kvöldið þar sem Grundfirðingar taka á móti Grenvíkingum í 3. deildinni og frítt er á völlinn. Þá verður einnig ball með Jóhönnu Guðrúnu og hljómsveit. Á laugardag verður ýmislegt til skemmtunar m.a. töfranámsskeið herra Einars Mikaels töframanns í Samkomuhúsinu og fiskisúpa Lionsklúbbs Grundarfjarðar í hádeginu. Hátíðardagskrá verður síðan eftir hádegið þar sem Gunni og Felix verða kynnar og margt til skemmtunar, m.a. mun ungt heimafólk stíga á stokk og Selma Björns og Friðrik Ómar loka dagskránni með alvöru Júrórvisjón dúndri. Skrúðgöngur verða síðan um kvöldið og bryggjuball með Aroni og félögum. Þá verður stórdansleikur með Sálinni hans Jóns míns í risatjaldinu og dansað fram á rauða nótt í Grundarfirði.
Um næstu helgi mun Bílaklúbbur Skagafjarðar standa fyrir þriðju umferð í Íslandsmeistaramótinu í rallý. Klúbburinn sem fagnar 25 ára afmæli sínu með þessari keppni hefur um árabil haldið eina bestu keppni mótsins í nágrenni Sauðárkróks. Leikar hefjast á föstudagskvöld klukkan 18:00 við Skagfirðingabúð og verður ekið um Þverárfjall en það er skemmtileg áhorfendaleið þar sem ekið er samhliða þjóðveginum, ýmist vinstra eða hægra megin. Meðan á keppni stendur er þjóðvegurinn lokaður á þeim stað sem ekið er yfir veginn en áhorfendur geta staðsett sig á milli lokana og notið keppninnar þannig enn betur. Keppninni lýkur síðan á föstudagskvöldið með innanbæjarleið um Sauðárkrókshöfn. Er fólk hvatt til að mæta og fylgjast með. Eftir næturhlé verður haldið upp á Mælifellsdal en þar reynir gríðarlega á bæði bíla og áhafnir þar sem sú leið er 22 km löng. Sú leið verður ekin fram og til baka. Þess má geta að ýmsar áhafnir hafa endað keppni á þeim leiðum. Að því loknu verður Vesturdalurinn einnig ekinn fram og til baka. Síðasta leið keppninnar er að venju áhorfendaleiðin um svokallaðar Nafir. Hún hefur ávallt verið augnayndi áhorfenda. Auk þess verður síðari ferðin svokölluð “Gestacoara-leið.” Á slíkri leið fá gestir að spreyta sig sem aðstoðarökumenn. Þrír heppnir vinningshafar af sýningunni “Kraftur” verða meðal þeirra. Er fólk hvatt til að koma og fylgjast með keppninni en bent á að virða öryggislokanir. TímOn-félagar mæta galvaskir í þessa keppni að venju. Heimamaðurinn í Skagafirði, Baldur Haraldsson, hefur látið hlúa örlítið að bílnum og ætti hann því að verða eins og best verður á kosið. Bæði Baldur og Borgfirðingurinn Aðalsteinn Símonarson eru vel kunnugir rallýakstri í Skagafirði en þetta er þriðja sumarið sem þeir keppa þar saman. Eftir sigur í síðustu keppni leiða þeir félagar á Íslandsmeistaramótinu með átta stiga forskot á þá Hilmar B. Þráinsson og Elvar Smára Jónsson. Þeir Baldur og Aðalsteinn hafa því það markmið að ná fullu húsi stiga.
Skagamenn höfðu ekki stríðsgæfuna með sér í 1. deildarkeppninni í síðustu viku. Þeir töpuðu 0:1 fyrir heimamönnum á Selfossi á föstudagskvöld og á þriðjudagskvöldið þar á undan 2:4 fyrir KA á Akranesvelli. ÍA er engu að síður ennþá í öðru sæti deildarinnar með 21 stig, jafnt Þrótti og HK en sex stigum minna en Leiknir sem er á toppnum. KA er síðan í fimmta sætinu með 20 stig og Víkingur Ó í því sjötta með 19 stig. Leikurinn á Selfossi sl. föstudagskvöld fór fram við erfið skilyrði en það hellirigndi meðan hann fór fram. Fyrri hálfleikurinn var án marka en leikurinn einkenndist af mikilli baráttu. Það var síðan strax á upphafsmínútu seinni hálfleiks sem Selfyssingurinn Ingi Rafn Ingibergsson skaut af 40 metra færi á mark Skagamanna. Boltinn sigldi yfir Árna Snæ í marki ÍA og í netið. Eftir þetta jókst sóknarþungi Skagamanna en erfiðlega gekk að finna glufur á vörn Selfyssinga. Þeirra taktík í sumar hefur verið að liggja til baka og beita skyndisóknum og það gerðu þeir í þessum leik. Skagamenn áttu tvö góð færi undir lok leiksins en ekki tókst að skora þannig að 1:0 sigur Selfyssinga var niðurstaðan. Næsti leikur ÍA verður á Akranesvelli á fimmtudagskvöld gegn Grindavíkingum sem eru eins og stendur í fallsæti. Grindvíkingar hafa engu að síður verið að sækja í sig veðrið að undanförnu eftir dapurt gengi í sumar og búast má við hörkuleik.
Þess er nú minnst í Noregi að 200 ár eru liðin frá því að stjórnarskrá landsins var staðfest á Eidsvoll 1814. Hún telst til elstu stjórnarskráa Norðurlandanna og af tilefninu eru nú hátíðahöld um allan Noreg og teygja sig nú til Reykholts í Borgarfirði þar sem hátíðardagskrá verður á laugardaginn þegar Reykholtshátíð stendur sem hæst. Snorri Sturluson er órjúfanlegur hluti af sjálfstæðisbaráttu Noregs því með skrifum sínum í Heimskringlu um norsku konungana staðfesti hann mikilvægan þátt í sögu landsins, sem að öðrum kosti hefði glatast. Efni dagskrárinnar í Reykholtskirkju á laugardaginn hefst klukkan 13. Þar fara saman ávörp, erindi og tónlist í höndum tónlistarfólks Reykholtshátíðar sem helgast af þessu tilefni af hlut Snorra Sturlusonar í sögunni. Lars Tvete, ræðismaður Íslands í Þrándheimi afhendir þar Snorrastofu gjöf Norðmanna á eftirgerð af legsteini Skúla jarls, en hann átti beinan þátt í að Snorri var sæmdur norskri jarlstign á sínum tíma. Ávörp flytja Björn Bjarnason formaður stjórnar Snorrastofu, Olemic Thommessen forseti Stórþingsins og Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. Þá flytja nokkrir einstaklingar erindi. Jon Gunnar Jørgensen flytur erindið „Inspirasjon fra sagaene på Eidsvoll 1814.“ Knut Ødegård flytur erindið „Noen tanker om maskulinitetsideal og homofobi i eddaens gudedikt“ og Steinar Bjerkestrand flytur erindið „Vår kristne og humanistiske arv. Arven fra Nidaros.” Þá mun Óskar Guðmundsson flytja erindið „Venner helt til döden. Nogle tråder i forholdet mellem Skule jarl, hertug og konge - og hans ven og kompagnion Snorre Sturlason skjald - og jarl - i Island“. Boðið verður til veitinga í Finnsstofu inn af sýningarsal Snorrastofu á jarðhæð. Dagskrárslit verða í höndum sendiherra Noregs á Íslandi, Dag Wernø Holter og dagskrárstjóri verður sr. Geir Waage. Dagskráin er öllum opin og er aðgangur ókeypis. -fréttatilkynning
Fréttasafn
Leit á vefnum
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing
Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is