Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Miðaftann. Fimmti Laugardagur í Haustmánuði
Auglýsing
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Á að einskorða nemendur framhaldsskóla við 25 ára og yngri?
Áskrift að Skessuhorni
Smáauglýsingar
Færð á vegum
Kjalarnes 19:30  VNV 0  4°C
Akrafjall 19:30  V 1  3°C
Hafnarfj. 19:30  NA 7  4°C
Vatnaleið 19:30  VNV 5  0°C
Hraunsm. 19:30  NA 7  4°C
Fróðárh. 19:30  NNA 8  2°C
Brattabr. 19:30  NA 8  -1°C
Holtav.h. 19:30  NNA 4  -4°C
Laxárd.h. 19:30  ASA 5  -2°C
Svínad. 19:30  NNA 7  1°C
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
Þátttakendurnir Aron Alexander, Sara Rós og Haukur Páll ásamt dómnefndinni.  Ljósm. Sumarliði.
Síðastliðinn þriðjudag fylltist Ráðhússloftið hjá Stykkishólmsbæ af áhugasömu og spenntu fólki. Það var þangað komið til að sjá myndböndin níu sem bárust í myndbandasamkeppni verkefnisins um burðarplastpokalausan Stykkishólm og heyra um úrslitin í keppninni. Spennan stigmagnaðist eftir því sem leið á sýningu myndbandanna, enda ljóst að keppnin var mjög jöfn. Höfðu gestir orð á því hvað myndböndin væru vel unnin, áhrifarík og fjölbreytt. Allir þátttakendur fengu viðurkenningar fyrir framlög sín, en Sæferðir gáfu fría Víkingasushi siglingu, Stykkishólmsbær gaf sundkort og Heilsa ehf. gaf margnota Baggu innkaupapoka. Dómnefnd skipuðu þær Theódóra Matthíasdóttir, Rannveig Magnúsdóttir, Birgitta Stefánsdóttir og Anna Margrét Ólafsdóttir. Theódóra ákvað hins vegar að sitja hjá vegna tengsla hennar við suma keppendur. Erfitt reyndist að velja á milli myndbandanna og ákvað dómnefndin því að kalla til liðs við sig samtals ellefu aðstoðardómara sem veittu ráðgjöf við val á þremur myndböndum sem hlutu peningaverðlaun.Niðurstaðan var sú að Aron Alexander Þorvarðarson hreppti fyrsta vinninginn, 100.000 króna peningaverðlaun. Sara Rós Hulda Róbertsdóttir varð í öðru sæti og Haukur Páll Kristinsson í því þriðja. Öll myndböndin sem bárust í samkeppnina verða gerð opinber á sérstakri YouTube síðu og verða jafnfram gerð aðgengileg á Facebooksíðu verkefnisins „Burðarplastpokalaus Stykkishólmur“. Sjá myndbandið hér.
Vinnustofa vegna vaxtarklasaverkefnis í Bogarbyggð var haldin í gær á Bifröst. Verkefnið er samstarfsverkefni Háskólans á Bifröst, sveitarfélagsins Borgarbyggðar og fyrirtækja á svæðinu. Starfsmenn Háskólans á Bifröst, Jón Bjarni Steinsson og Hallur Jónasson unnu að verkefninu undir leiðsögn sérstakrar verkefnisstjórnar á vegum Hákólans á Bifröst og Borgarbyggðar. Á vinnustofunni var farið yfir niðurstöður vinnu síðustu mánuða á vegum skólans en starfsmennirnir tveir hafa rætt við fjölda fólks í Borgarfirði. Á stofunni voru kynnt nokkur vaxtarverkefni í Borgarbyggð þar sem fram koma mörg spennandi og áhugaverð verkefni eru í deiglunni. Ennfremur var bent á ýmis verkefni sem enginn er að vinna að og vantar að setja í viðeigandi farveg. Flest vaxtarverkefnin eru í ferðaþjónustu en ennfremur eru ýmis verkefni tengd matvælavinnslu og almennri þjónustu. Mikil umræða varð um verkefnin og ýmsar hugmyndir voru reifaðar. Skýrt kom fram að ónýtt tækifæri eru fjölmörg til uppbyggingar í Borgarbyggð. Mikið var rætt um nauðsyn þess að menn vinni saman og nýti þá stoðþjónustu sem í boði er. Á næstu vikum mun koma í ljós hvort sérstakur vaxtarklasi verður að veruleika þar sem stofnað verði til formlegs samstarfs í kringum einstök vaxtarverkefni. Nánar verður fjallað um fundinn í næsta Skessuhorni.
Tax Free dagar hófust á Akranesi í gær og standa fram á laugardag. Verslunir sem taka þátt í ár eru @home, gallerí Ozone, Mozart hársnyrtistofa, Snyrtistofa Guðrúnar, Gallerý Snotra, Rammar og Myndir, Sjónglerið, Hans og Gréta, verslunin Bjarg, Dekur snyrtistofa, verslunin Nína, Model, Face snyrtistofa, Penninn Eymundsson og hárhús Kötlu. Á Tax Free dögum bjóða verslanir viðskiptavinum 15% afslátt af keyptri vöru líkt og erlendir ferðamenn fá á Íslandi en misjafnt er hvort fyrirtæki veita afslátt af öllum vörum eða völdum vöruflokkum. Það ættu því allir að geta gert góð kaup á Skaganum nú um helgina. Sjá auglýsingu hér
Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar var kallað út á fimmta tímanum í nótt um borð í Steinunni AK sem liggur við Sementsbryggjuna á Akranesi. Mikill reykur var í vélarsal skipsins og voru reykköfunarmenn sendir þar inn. Í ljós kom að reykurinn stafaði frá ljósavél sem orðið hafði bilun í. Enginn eldur var laus en reykræsta þurfti vélarrúmið. Aðgerðin gekk vel og tók um það bil klukkutíma að sögn Þráins Ólafssonar slökkviliðsstjóra.
Auglýsing
Bændur á Skerðingsstöðum að hefja byggingu lausagöngufjóssÞað stendur mikið til hjá bændum á Skerðingsstöðum í Hvammssveit í Dölum um þessar mundir. Nýlega hófust framkvæmdir við byggingu lausagöngufjóss á bænum sem byggt verður í vetur og áformað að taka í notkun næsta sumar. Þá er framundan hrútasýning á Skerðingsstöðum um næstu helgi sem haldin verður í tengslum við hausthátíð sauðfjárbænda í Dölum. Langt er komið með að grafa fyrir haughúsinu og þeir bændur á Skerðingsstöðum; Jón Egill Jóhannsson og Bjargey Sigurðardóttir, stefna á að byggingarvinnan hefjist á næstunni. „Þetta hefur lent svolítið ofan í smalamennskum og öðrum haustverkum,“ sagði Jón Egill í samtali við Skessuhorns. Það verður byggingaflokkur í Dölunum með Ármann Sigurðsson byggingameistara í broddi fylkingar sem mun vinna að byggingu fjóssins á Skerðingsstöðum. Það verður rúmlega 500 fermetrar að grunnfleti með legubásum fyrir allt að 35 mjólkandi kýr auk stía fyrir geldneyti, mjólkurhús og annarri þeirri aðstöðu sem tilheyrir mjólkurframleiðslu í dag. Jón Egill segir að aðeins sé pláss fyrir15 mjólkandi kýr í gamla fjósinu á Skerðingsstöðum og nú sé ætlunin að fjölga enda ágætt útlit í mjólkurframleiðslunni. Á Skerðingsstöðum er blandað bú, auk kúnna um 300 kindur. Jón segir að þrátt fyrir að kúnum verði fjölgað sé ekki ætlunin að fækka kindunum, allavega ekki svona í fyrstu.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að á Vesturlandi og Vestfjörðum sé nú hálka eða hálkublettir á flestum leiðum en snjóþekja á Þröskuldum og á Hálfdán. Hálka og éljagangur er á Steingrímsfjarðarheiði og í Ísafjarðardjúpi. Hálkublettir eru í Þrengslum og hálka eða hálkublettir víða í uppsveitum á Suðurlandi. Það er hálka eða snjóþekja á Norðurlandi og éljagangur mjög víða austan Blönduóss. Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja á vegum en greiðfært frá Djúpavogi og suður að Öræfasveit en þar taka við hálkublettir að Vík í Mýrdal.
Stjórnkerfisbreytingar samþykktar í bæjarráði AkranessÁ fundi bæjarráðs Akraness í síðustu viku voru samþykktar allnokkrar stjórnskipulagsbreytingar hjá Akraneskaupstað en bæjarstjórn á síðan eftir að leggja blessun sína yfir þær. Þessar breytingar lúta að ýmsum málaflokkum innan bæjarkerfisins og ekki var eining um þær allar innan bæjarráðsins. Í fyrsta lagi var samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu tillaga um stofnun nýs skipulags- og umhverfisráðs með sameiningu framkvæmdaráðs og skipulags- og umhverfisnefndar. Ennfremur var samþykkt að færa verkefni sem snúa að íþróttamálum á skóla- og frístundasvið. Ingibjörg Valdimarsdóttir fulltrúi S-lista, sem er í minnihluta, lagði fram bókun við tillögunni. Þar kemur meðal annars fram að hún telji óeðlilegt að eftirlit og ákvörðun með framkvæmdum á vegum bæjarins sé á sömu hendi og skipulag sem þær sömu framkvæmdir heyri undir. Einnig var samþykkt að leggja niður fjölskylduráð og stofna skóla- og frístundaráð og velferðar- og mannréttindaráð. Ennfremur að staða sviðsstjóra fjölskylduráðs verði lögð niður og auglýstar verði stöður sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og velferðar- og mannréttindasviðs. Þá var samþykkt einróma tillaga um breytingu á innra skipulagi stjórnsýslu- og fjármálasviðs og felst í að leggja niður starf þjónustu- og upplýsingastjóra. Sviðsstjóra var falið að leggja fram tillögu að nýju skipulagi í samráði við bæjarstjóra fyrir 1. janúar 2015. Þá var einnig samþykkt tillaga um stofnun menningar- og safnanefndar með sameiningu stjórnar Byggðasafnsins í Görðum og menningarmálanefndar. Ennfremur að fram fari skoðun á menningar- og safnamálum á Akranesi með heildarsýn á málaflokknum í huga. Ingibjörg Pálmadóttir bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn lagði fram bókun þar sem hún vill tryggja að allir flokkar í bæjarstjórn eigi fulltrúa í menningar- og safnanefnd en svo er ekki miðað við það fyrirkomulag sem lagt er til með breytingunni. Ingibjörg Valdimarsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar lagði einnig fram bókun. Þar kemur fram að hún telji ekki nægjanlega reynslu komna á núverandi fyrirkomulag innan stjórnkerfisins til að ástæða sé til þeirra breytinga sem lagðar eru til, en Ingibjörg lagðist þó ekki gegn tillögunni. Tillaga að nýju skipuriti fyrir Akraneskaupstað var samþykkt einróma á fundi bæjarráðs en það bíður nú endanlegs samþykkis bæjarstjórnar.
Eftir að frétt birtist í Skessuhorni nýlega um að engin skammtímavistun fyrir fatlaða væri starfrækt á Vesturlandi hafði samband við blaðið Steinunn Júlía Steinarsdóttir þroskaþjálfi í Norðtungu 3 í Borgarfirði. Úrræði sem Steinunn Júlía hefur starfrækt frá ársbyrjun 2008 kemst trúlega næst því að vera skammtímavistun þótt samningur um þjónustuna falli ekki undir það, heldur eru Steinunn Júlía og Georg Magnússon stuðningsforeldrar barna víðs vegar af landinu. „Við erum með stuðningsfjölskyldu samning við tólf fjölskyldur og megum hafa hjá okkur fjögur börn í einu. Yfir vetrartímann koma hingað börn og unglingar og dvelja hér um helgar. Krakkarnir koma meðal annars frá Akranesi, Reykjavík, Hafnafirði og víðar. Yfir sumartímann eru hér eldri einstaklingar sem dvelja viku til tvær vikur í senn. Eldri einstaklingarnir sem hafa verið hérna á sumrin koma einnig víða að eins og t.d. frá Akranesi, Mosfellsbæ, Sauðárkróki, Suðurnesjum og Þorlákshöfn. Þetta eru mjög gjarnan sömu einstaklingarnir sem koma aftur og aftur, ár eftir ár og reyndar nokkrir sem koma hér í dvalir vetrartímann. Ýmist um helgar eða í miðri viku allt eftir aðstæðum hvers og eins.“ Afþreying í umhverfinu og dýrunum Steinunn Júlía segir að foreldrar komi yfirleitt með börnin í Norðtungu á föstudögum eftir skóla. „Við keyrum þau síðan í skólann á mánudagsmorgnum. Reyndar er í nokkrum tilfellum sem foreldrar sækja börnin á sunnudögum en það fer svolítið eftir því hversu marga sólarhringa í mánuði börnin og unglingarnir eru hjá okkur. Nokkrir sem koma með Strætó á föstudagssíðdegi og við sækjum þau á Hvítársíðugatnamótin og skutlum þeim síðan aftur á rútuna á sunnudögum. Nokkrir einstaklingar hafa verið hér í lengri vistun, sótt skóla niður á Varmaland og einnig í Menntaskólann í Borgarnesi,“ segir Steinunn. Hún segir hversu marga sólahringa einstaklingarnir fái í stuðning sé alfarið í höndum sveitarfélaganna sem þau koma frá. „Hér er smá búskapur. Við erum með kindur, naut, hesta, hænur og endur, auk hunda og katta. Einnig höfum við verið með svín yfir sumartímann. Markmiðið er að einstaklingarnir taki þátt í umhirðu dýranna eftir því sem geta þeirra leyfir. Við erum með nokkra hesta og farið er á hestbak eins og hægt er. Við reynum að nýta allt sem umhverfið býður upp á. Til svona reksturs þarf leyfi frá viðkomandi yfirvöldum og gerðir eru samningar um hvern einstakling sem er í stuðningskerfinu. Eldri einstaklingarnir sem koma í sumardvalir og yfir vetrartímann koma á eigin vegum,“ segir Steinunn Júlía. Þess má geta að nokkrir stuðningsforeldrar eru starfandi á Vesturlandi, þar á meðal á Hvítanesi í Hvalfjarðarsveit. Þeir eru þó með mun færri börn í vistun en Steinunn Júlía í Norðtungu 3.
Fréttasafn
Leit á vefnum
Auglýsing
Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is