Auglýsing
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hvernig líst þér á kröfugerð aðildarfélaga ASÍ?
Áskrift að Skessuhorni
Smáauglýsingar

Gistiíbúð í Eyafirði

Tveggja herbergja íbúð til leigu.Uppbúin rúm fyrir 4.Íbúðin leigist eftir samkomulagi frá einni nótt...
Færð á vegum
Kjalarnes 16:20  ASA 2  -1°C
Akrafjall 16:20  A 0  0°C
Hafnarfj. 16:20  SA 2  1°C
Vatnaleið 16:30  NV 5  -1°C
Hraunsm. 16:20  VSV 2  -1°C
Fróðárh. 16:20  NA 10  -2°C
Brattabr. 16:20  SSA 1  -3°C
Holtav.h. 16:30  SSV 5  -3°C
Laxárd.h. 16:20  VSV 3  -2°C
Svínad. 16:30  ASA 0  -2°C
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
Fálka gerði sig heimakominn í gær á lóð Grundaskóla á Akranesi. Kom hann sér þar fyrir og var laugardagsmaturinn máfur. Hafði fálkinn um hríð verið að velja sér rólegan stað til að snæða bráð sína. Gísli Guðmundsson tók meðfylgjandi mynd þegar máltíðin var um það bil hálfnuð.
Bakaríið Brauðval á Akranesi, sem um er 25 ára á þessu ári, opnaði afgreiðslu og konditori á nýjum stað í dag. Þrátt fyrir að Ingimar Garðarsson bakari hafi ákveðið að fara hljóðlega með opnunina nú í fyrstu var margt fólk sem lagði leið sína til hans og greinilegt að viðskiptavinir fögnuðu þessari viðbót á bakarísmarkaðinn á Skaganum. Brauðval hefur síðustu árin verið til húsa við Vallholt á Akranesi en áður var það um árabil rekið í Búðardal. Nú er starfsemin flutt í framtíðarhúsnæði við Skólabraut í hús sem segja má að sé þrungið sögu bakaría. Fróðir menn segja að þetta sé sjöunda bakaríið sem opnað er í húsinu. Lokað verður um helgina en opnað á ný næstkomandi mánudagsmorgun. Nánar verður sagt frá Brauðvalsflutningum í Skessuhorni í næstu viku.
Sóknarhugur á ráðstefnu um framtíð háskóla í BorgarbyggðSóknarhugur var í fólki á ráðstefnu um framtíð háskóla í Borgarbyggð sem haldinn var í Hjálmakletti, mennta- og menningarhúsinu, í Borgarnesi í dag. Ráðstefnan var vel sótt og fundarsalurinn í Hjálmakletti þétt skipaður. Meðal gesta og frummælenda á fundinum var Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra en talsvert var rætt um nýjasta útspil menntamálaráðuneytisins varðandi skipulag háskólastarfs í landinu, það að háskólanir þrír í Norðvesturkjördæmi, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Háskólinn á Hólum verði gerðir að sjálfseignastofnunum en rekstur þeirra sameinaður. Ráðherra sagði að með þessu væru áformin ekki að kroppa nokkur stöðugildi af skólunum til fjárhagslegar hagræðingar, heldur væri markmiðið að finna möguleika til að styrkja þá og skapa þeim ákveðna sérstöðu til viðbótar og fjölbreytni öðru háskólastarfi í landinu. Ráðherra boðaði að í undirbúningi væri stofnun starfs- og vinnuhóps sem myndi vinna að þessu verkefni. Ætlunin væri að í þeim hópi yrðu auk fulltrúa ráðuneytis og úr háskólasamfélaginu, sveitarstjórnarmenn og fulltrúar atvinnulífsins. Rektorar háskólanna í Borgarbyggð voru meðal frummælenda á fundinum. Vilhjálmur Egilsson rekstur Háskólans á Bifröst sagði skólastarf í mikilli sókn og nemendum væri að fjölda. Námsframboð í skólanum væri öflugt og nýjan línan í Forystu og stjórnun algjörlega að slá í gegn. Með áformum um sameiningu háskólanna í Borgarfirði yrði að leggja upp með að útkoman yrði öflug menntastofnun. Björn Þorsteinsson rektor LhbÍ á Hvanneyri kvaðst hafa efasemdir um sjálfeignastofnunar-fyrirkomulagið, en skipulögðu undanhaldi Landbúnaðarháskólans yrði engu að síður að linna og landbúnaðarmenntun yrði að efla í landinu. Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri Borgarbyggðar kvaðst mjög ánægð með ráðstefnuna og einnig hugmyndina um sameiningu háskólanna þriggja. Sagðist hún sjá ákveðin tækifæri í því og hugmyndin væru í þeim anda sem heimafólk hefði rætt. Hvatt var til þess á fundinum að starf vinnuhópsins myndi hefjast sem fyrst. Það var Framfarafélag Borgfirðinga sem síðasta haust fór af stað með hugmynd um ráðstefnuna en að henni stóðu einnig Borgarbyggð og háskólarnir á Bifröst og Hvanneyri auk Snorrastofu. Nánar verður fjallað um ráðstefnuna í næsta blaði Skessuhorns.
Langþráð stig til Skallagríms í tvíframlengdum leikÞað var rafmögnuð spenna sem myndaðist í Fjósinu í Borgarnesi í gær þegar Skallagrímur tók á móti Haukum í Dominosdeild karla í körfunni. Tvíframlengja þurfti leikinn þar sem jafnt var á stigum í leikslok og eftir fyrri framlengingu. Það voru þó Borgnesingar sem höfðu betur í 207 stiga leik; þar sem stigin skiptust 106:101. Skallagrímur leiddi framan af leik og var yfir í hálfleik 48:45. Þeir gul-grænklæddu bættu í forskot sitt í síðari hálfleik og voru tíu stigum yfir 83:73 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir. Þá kom góður kafli hjá Hafnfirðingum sem sættu lagi og jöfnuðu leikinn 84:84 þegar einungis fáeinar sekúndur voru eftir. Skallagrímsmenn reyndu að ljúka leiknum en skot Sigtryggs Arnars Björnssonar í leikslok geigaði. Framlenging var því staðreynd og mátti greina hroll hjá mörgum stuðningsmönnum á pöllum Fjóssins sem eftir nýlega reynslu höfðu ekki áhuga á framlengingum. Í seinni framlengingunni náðu Skallagrímsmenn að klára þetta og voru ósvikin fagnaðarlæti heimamanna á pöllunum, en þá var verulega farið að þyrsta í stigasafnið. Þar með eru sex stig í húsi og tíunda til ellefta sætið í deildinni. Hjá Skallagrími var Sigtryggur Arnar Björnsson atkvæðamestur með 36 stig, tók 6 fráköst og átti 7 stoðsendingar. Í næstu umferð sækja Skallagrímsmenn Fjölni heim í Grafarvoginn og fer sá leikur fram föstudagskvöldið 6. febrúar.
Auglýsing
Skagamaðurinn Sigurður Helgason tók þátt í keppni bestu matreiðslumanna heims, Bocuse d’Or keppninni í Lyon í Frakklandi, óformlegri heimsmeistarakeppni, sem fram fór fyrr í vikunni. Sigurður stóð sig mjög vel í keppni 24 matreiðslumanna og hafnaði í áttunda sæti. Hver keppandi þurfti að reiða fram 14 forréttadiska og síðan einn bakka sem á er aðalrétturinn, einnig fyrir 14 manns. Sigurður tengdi saman í matargerð sinni ímynd hreinleika landsins, afurðir þess og náttúrufegurð. Meðan annars var á bakka hans eldfjall sem vakti talverða athygli sýningargesta á keppninni. Þátttaka Sigurðar í keppninni var vel studd áhugamannafélagi héðan að heiman og var Magnús H. Ólafsson arkitekt á Akranesi forsvarsmaður fyrir hópnum. Magnús fylgdist með keppninni á staðnum. „Ég vil byrja á því að þakka sérstaklega fyrir framlög Skagamanna fyrir stuðning við keppnishald Sigurðar,“ sagði Magnús í samtali við Skessuhorn. Hann segir árangur Sigurðar í keppninni vera stórmerkilegan. „Þeir stóðu sig alveg með prýði. Það að lenda í næsta sæti á eftir Frökkum er stórmerkilegur hlutur.“ Þá nefndi hann einnig að gaman hafi verið að sjá hversu vel Norðurlöndin stóðu sig í keppninni. „Norðmenn urðu í fyrsta sæti, Svíar í því þriðja, Finnar í fjórða, Danir í sjötta sæti og svo Ísland í áttunda sæti á eftir Frökkum. Þetta er verulega góður árangur hjá Sigurði og það var einstaklega ánægjulegt að vera viðstaddur þessa keppni. Það var samt sem áður greinilegt að þeir sem hafa mestan fjárhagslegan stuðning í undirbúningi og þess háttar lenda ofarlega,“ sagði Magnús H. Ólafsson forsvarsmaður stuðningsmanna Sigurðar.
Einar Sigurðsson launþegi og fasteignaeigandi í Borgarbyggð hefur sent opið bréf til forseta ASÍ, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins og formanns Stéttarfélags Vesturlands. Þar bendir Einar á að sveitarfélagið Borgarbyggð hafi við gerð fjárhagsáætlunar í desember síðastliðinn tekið ákvarðanir um gríðarlegar hækkanir á gjaldskrá. „Dæmi eru um 36% hækkun fasteignagjalda og 30% hækkun lóðarleigu, svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur sveitarstjórn samið við Orkuveitu Reykjavíkur um að fráveitugjöld í Borgarbyggð verði hækkuð um 32,5% um næstu áramót,“ segir Einar í bréfi sínu. Einar nefnir dæmi og segir m.a. eiganda fasteignar í Borgarbyggð, sem greiddi árið 2014 295 þúsund krónur í gjöld af fasteign sinni, muni þurfa að greiða 350 þúsund af sömu eign árið 2015. „Sú hækkun er nær eingöngu vegna hækkana á lóðarleigu og fasteignagjöldum. Dæmi eru um verulegar hækkanir á öðrum gjaldskrám sveitarfélagsins.“ Einar bendir á að í Borgarbyggð séu einhverjar lægstu meðallaunatekjur á einstakling á landinu. „Verklýðshreyfingin verður að beita sér og standa vörð um kjör og réttindi launamanna,“ segir Einar Sigurðsson. „Framkvæmum minna ef skattar verða lækkaðir á ný“ Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri í Borgarbyggð segir að vissulega séu þetta mjög miklar hækkanir og því eðilegt að íbúar bregðist við. „Mín hugsun og von er sú að staðan nú leiði til þess að samstaða náist um hagræðingaraðgerðir i rekstri sveitarfélagsins. Það hefði verið mun betra ef fasteignagjöld hefðu verið hækkuð að hluta árið 2013 þannig að óhjákvæmileg hækkun nú yrði ekki þetta há,“ segir Kolfinna þegar umkvartanir Einars Sigurðssonar eru bornar undir hana. „Það eru kynningarfundir á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 í þessari viku og vonandi fjölmenna íbúar á þá fundi þannig að hægt sé að fara vel yfir þessi mál. Það er líka rétt að það eru dæmi um verulegar hækkanir á gjaldskrám en það er rétt að nefna sem dæmi að ákveðið var að fara ekki í hækkanir á leikskólagjöldum.“ Kolfinna segir að sveitarfélagið hafi fengið erindi frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga í desember síðastliðnum þar sem áréttað var að Borgarbyggð stóðst ekki jafnvægisreglu sveitarfélaga fyrir árin 2013 til 2015. Þar var lögð áhersla á að sveitarfélagið gerði ráðstafanir í þá yfirstandandi fjárhagsáætlanagerð til að jafnvægisreglunni yrði náð fyrir árin 2014-2016. „Þrátt fyrir þessar miklu skattahækkanir núna og að vinna er hafin við hagræðingaraðgerðir í rekstri þá náðum við ekki að uppfylla þessi viðmið um að samanlög heildarútgjöld á þriggja ára tímabili séu ekki hærri en sem nemur reglulegum tekjum. Við þurfum því að fara í frekari vinnu við að greina hagræðingarmöguleika á nýju ári,“ segir Kolfinna að endingu.
Vetrarferðamennska eykst á VesturlandiFólk í ferðaþjónustu á Vesturlandi segir að veruleg aukning hafi orðið á fjölda ferðamanna sem leggja leið sína um landshlutann að vetrarlagi. „Straumur ferðamanna eykst stöðugt. Við erum farin að sjá ferðalanga koma út úr kófinu, meira að segja nú í janúar. Fólk virðist í auknum mæli farið að ferðast á eigin vegum og sumir víla ekkert fyrir sér, leigja sér einhverja jepplinga og bara æða af stað. Ferðatímabilið er tvímælalaust að lengjast, sérstaklega á þessum tíma í byrjun árs. Við í Dölum sáum bæði í fyrrahaust og á sama tíma árið þar á undan að straumur ferðafólks datt niður í október. En svo sáum við bæði í fyrra og hitteðfyrra að ferðamenn fóru að gera vart við sig strax í byrjun janúar,“ segir Valdís Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Leifsbúðar í Búðardal. Ferðamenn sem hingað koma um hávetur vilja upplifa vetrarríki náttúrunnar, vetrarfærðina á vegunum og margt annað, að sögn fararstjóra sem reglulega fer um með stækkandi hópa ferðafólks. Norðurljósin hafa loks verið seld Að sögn Valdísar eru það norðurljósin yfir Vesturlandi sem hafa mikið aðdráttarafl á þessum árstíma. „Okkur er loks að takast að selja þau,“ segir hún og hlær við. „Það er vinsælt til að mynda að koma á Vog á Fellsströnd, hreiðra um sig þar, horfa á norðurljósin eða út yfir Breiðafjörðinn.“ Halldór Björnsson leiðsögumaður hjá Kynnisferðum tekur undir þetta. Þegar blaðamaður Skessuhorns hitti Halldór á laugardaginn um liðna helgi var hann með um 30 manna hóp í hringferð um Snæfellsnes. Fólkið hafði gert hlé á för sinni til að snæða hádegisverð sem samanstóð af íslenskri kjötsúpu og heimabökuðu brauði hjá Ólínu Gunnlaugsdóttur í Samkomuhúsinu á Arnarstapa. „Við hjá Kynnisferðum erum með dagsferð frá Reykjavík sem hefst klukkan átta. Þá ökum við sem leið liggur út úr borginni og upp í Borgarnes. Svo er farið út á Snæfellsnes. Sunnanmegin stoppum við í Ytri Tungu í Staðarsveit. Þar er oft hægt að sjá til sela auk þess sem umhverfið er mjög fallegt þar. Svo er farið hingað að Arnarstapa. Hér göngum við með fólkinu frá höfninni að styttunni af Bárði Snæfellsás. Það er líka komið við á Djúpalónssandi og farið til Ólafsvíkur. Oft er svo stoppað við Kirkjufellið í Grundarfirði sem fólk vill skoða og ljósmynda. Við ljúkum síðan hringferðinni í Stykkishólmi áður en við höldum til baka suður til Reykjavíkur. Þetta er svona tólf tíma ferð. Á veturna förum við hana á miðvikudögum og laugardögum, en höfum fleiri ferðir í viku á sumrin.“ Eftirspurnin hefur margfaldast Halldór segir að eftirspurn í vetrarferðir hafi stóraukist á undanförnum árum. „Það er síst minna að gera hjá okkur núna í dagsferðum á veturna samanborið við á sumrin. Þetta er mikill viðsnúningur og hið besta mál. Fyrir þremur árum síðan vorum við aðeins með eina ferð í viku, oft á litlum bílum sem tóku kannski 10-12 manns. Nú í vetur förum við tvisvar í viku á bílum sem taka 40-50 manns. Þetta helst í hendur við að ferðamönnum hefur fjölgað mikið hér á landi yfir vetrarmánuðina. Mikið af vetrarferðafólkinu kemur frá Evrópu, en einnig margt frá Asíulöndum á borð við Kína, Japan og Taívan. Það hefur svo verið mikil fjölgun meðal Breta. Það skýrist sjálfsagt af því að mörg flugfélög fljúga orðið frá Bretlandseyjum hingað til Íslands. Sætaframboðið þaðan hefur aukist mikið.“ Að sögn Halldórs eru það norðurljósin sem hafa mest aðdráttarafl. „Þau trekkja mest, enda hafa þau verið auglýst duglega. Síðan er hitt sem fólkinu þykir framandi bara bónus. Þar má nefna vetrarríki náttúrunnar, vetrarfærðina á vegunum og margt annað sem þau upplifa. Þau eru mjög svo hrifin af Vesturlandi. Langflest eða öll eru mjög ánægð með þessar ferðir og þykir náttúra landshlutans einstök.“
Sunnudaginn 1. febrúar verða 85 ár liðn frá stofnun Kvenfélagasambands Íslands. Tímamótanna verður minnst í afmælishófi í samkomusalnum í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum kl. 15 - 17 þann dag. Kvenfélagskonur, velunnarar og aðrir áhugasamir eru boðnir velkomnir í hófið. Dagurinn er jafnframt dagur kvenfélagskonunnar og verður hans minnst víða um land. Kvenfélagasamband Íslands, KÍ, var stofnað 1. febrúar 1930. Stofndagurinn, 1. febrúar, var árið 2010 útnefndur „Dagur kvenfélagskonunnar" og er sá dagur haldinn hátíðlegur ár hvert. Markmiðið að baki stofnunar Kvenfélagasambandsins var að stofna samstarfsvettvang fyrir öll kvenfélög landsins m.a. til að þau gætu komið fram sem ein heild. Kvenfélögin höfðu þá mörg hver starfað í áratugi án samnefnara sem stóð samvinnu þeirra þeirra að nokkru leyti fyrir þrifum. Kvenfélagasambandið er óbundið flokkapólitík og trúarskoðunum. KÍ skiptist nú í 17 héraðssambönd sem í eru um 170 kvenfélög. Innan vébanda félaganna eru um 5.000 konur.
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Auglýsing
Fréttasafn
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is