Auglýsing
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Fylgist þú með Eurovision?
Áskrift að Skessuhorni
Smáauglýsingar

Lítil fjölskylda óskar eftir einbýlishúsi eða heilsárshúsi til leigu,

Lítil fjölskylda óskar eftir einbýlishúsi eða heilsárshúsi til leigu, í Borgarnesi eða í dreyfbýli B...
Færð á vegum
Kjalarnes 20:50  VNV 7  6°C
Akrafjall 20:50  VNV 7  5°C
Hafnarfj. 21:00  V 6  6°C
Hraunsm. 20:50  VNV 8  5°C
Fróðárh. 21:00  NV 9  0°C
Brattabr. 20:50  NNV 6  2°C
Holtav.h. 21:00  V 4  3°C
Laxárd.h. 20:50  VSV 10  3°C
Svínad. 21:00  NV 2  3°C
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
Skúli Alexandersson fyrrverandi alþingismaður, sveitarstjórnarmaður og Sandari lést á Landspítalanum í gær, 88 ára að aldri. Skúli fæddist 9. september 1926 og ólst upp á jörðinni Kjós, nærri þeim stað sem Djúpuvíkurþorpið byggðist upp. Sjálfur sagðist hann einungis hafa verið smástubbur þegar hann fór að venja komur mínar á síldarplönin og þar í grennd. Þetta var á bestu árunum í Djúpuvík en svo fór að þar tók að halla undan fæti eins og víðar þar sem lífsbaráttan var erfið. Skúli fluttist til Hellissands 26 ára gamall en í millitíðinni fetaði hann menntaveginn og prófaði sitthvað fleira til sjós og lands. Safnaði þar reynslu sem átti síðar eftir að koma sér vel í reynslubankanum. Hann var m.a. á síld og síldarbátum sem náðu í silfur hafsins inn í Hvalfjörð og á sundunum við Reykjavík. Skúli fór í Samvinnuskólann sem þá var í Reykjavík. Að loknu námi þar réði hann sig til starfa hjá Kaupfélagi Skagfirðinga þar sem hann var verslunarmaður 1951-1952. Þá flutti hann vestur á Hellissand þar sem hans starfsvettvangur og búseta var eftir það auk þingmennskunnar við Austurvöll. Skúli starfaði hjá Kaupfélagi Hellissands í þrjú ár. Síðan tók hann þátt í því ásamt fleirum að kaupa 50 tonna mótorbát og starfaði að útgerð hans í nokkur ár. Tók þá við starfi framkvæmdastjóra Útgerðarfélagsins Jökuls 1961 og veitti því félagi forstöðu í þrjá áratugi, eða þar til útgerðinni var hætt. Skúli kvaðst sjálfur frá unga aldri hafa haft mikinn áhuga á stjórnmálum. Aðhyllst Sósíalistaflokkinn og Æskulýðsfylkinguna meðan hann nam í Samvinnuskólanum í Reykjavík. Svo eftir að hann fluttist vestur myndaði hans ásamt fleirum hóp félagshyggjumanna sem bauð fram lista til sveitarstjórnar í Neshreppi utan Ennis eins og sveitarfélagið hét þá. Þar náðu þeir meirihluta og Skúli varð oddviti 1954 og gegndi því embætti í 12 ár. Eftir það var hann oddviti í tæp tvö tímabil, en seinasta árið hans í oddvitastarfinu var 1981. En það var ekki nóg með að Skúli væri þaulsetinn í sveitarstjórn heldur var hann einnig kosinn til starfa á Alþingi. Hann var fyrst kosinn á þing fyrir Alþýðubandalagið á Vesturlandi 1979 og sat á þingi til 1991. Hafði reyndar áður verið inni á þingi meira og minna frá 1971 til 1979, sem varamaður Jónasar Árnasonar. Skúli sagði sjálfur að þátttaka sín í atvinnulífinu hafi verið besta vegarnestið þegar hann settist á þing. Alla tíð var hann með púlsinn á slagæð atvinnulífsins og fylgdist grannt með þróun búsetu og byggðar í sinni heimabyggð. Það gerði hann raunar allt til síðasta dags. Í takt við það helgaði hann ferðaþjónustunni starfskrafta sína síðustu áratugina eftir að þingstörfum lauk. Hann hafði meðal annars forustu um að byggja Hótel Hellissand, standa að uppbyggingu sjóminjasafns, skógrækt var hugleikin, nánara samstarf sveitarfélaga og sitthvað fleira. Líkamlegri heilsu Skúla tók að hraka á síðustu árum þótt hugurinn væri á sama hraða og fyrr. Fyrir einungis fáum mánuðum ákvað hann að flytja ásamt Hrefnu Magnúsdóttur eiginkonu sinni á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hann þurfti að vera í nálægð við ákveðna læknisþjónustu flesta daga. Hann undi hag sínum vel á Hrafnistu og sýndi þar áfram óbilandi áhuga sem hann hefur alla tíð haft fyrir landsmálum og ekki síst byggðamálum á Vesturlandi. Ekki er lengra en nokkrir dagar síðan hann hringdi í undirritaðan til að ræða sitthvað sem okkur báðum var hugleikið. Kvaðst þá vera nýkominn úr ferð vestur til að minnast látins félaga. „Hann var kannski síðastur þessara orginala sem unnu sinni heimabyggð,“ sagði Skúli um genginn samferðamann sinn. Ég kváði og sagði að meðan Skúli drægi andann væri allavega einn eftir. Hann hló sínum dillandi hlátri. Eftir að Skúli flutti á Hrafnistu tók Þórhallur Ásmundsson blaðamaður viðtal við hann sem birtist í Skessuhorni fyrr á þessu ári. Þar var skautað yfir ýmislegt úr lífshlaupi kappans. Lokaorðin í því viðtali geri ég að lokaorðum þessarar stuttu minningar um látinn héraðshöfðingja. Eftir að hafa komið að rekstri Skessuhorns í tæplega tvo áratugi hef ég verið spar á að kalla menn því sæmdarheiti sem héraðshöfðingi er. Get ég þó með góðri samvisku sagt að Skúli Alexandersson er sá einstaklingur sem sýnt hefur sínu heimahéraði og raunar Vesturlandi öllu hvað mesta ræktarsemi í seinni tíð. Slíkir menn eru jafn mikilvægir sínum heimahéruðum og sólin er öllu lífi á jörðinni. Aðspurður um framtíðarhorfur síns gamla byggðarlags á Snæfellsnesi, sagði Skúli: „Undirstöðuatvinnugreinarnar, sérstaklega sjávarútvegurinn, eru sterkar á Snæfellsnesi. Ferðaþjónustan er líka stöðugt að eflast og á mikla framtíð fyrir sér. Ég var baráttumaður fyrir því að sveitarfélögin sameinuðust og varð fyrir vonbrigðum að Grundarfjörður og Stykkishólmur kæmu ekki inn í sameininguna þegar Snæfellsbær varð til. Ég held að sameinað sveitarfélag á Snæfellsnesi, sem yrði það annað stærsta á Vesturlandi, gæti gefið slagkraft til aukinnar uppbyggingar á svæðinu. Ég býst við að fyrr en seinna þurfi fólk að fara að huga að því. Við þurfum að standa saman, það gerir okkur sterkari. Fjölbrautaskólinn er gott dæmi um það og mjög mikilvægt að við getum varið alla starfsemi á svæðinu og eflt hana. Öðruvísi fjölgar fólkinu ekki eða byggðin eflist.“ Ég votta eftirlifandi eiginkonu, börnum og öðrum afkomendum dýpstu samúð. Blessuð sé minning Skúla Alexanderssonar. Magnús Magnússon, ritstjóri.
Víkingur Ólafsvík tók á móti Selfossi í gær í þriðju umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í gær. Sigruðu heimamenn með einu marki gegn engu. Það var William Dominguez da Silva sem skoraði fyrir Víkinga í upphafi síðari hálfleiks og reyndist það eina mark leiksins. Leikurinn var fremur jafn allan tímann en Víkingur var þó sóknarlega betri og allar sóknir Selfyssinga strönduðu á sterkri vörn Víkinga auk þess sem spænski markmaðurinn Cristian Martinez Liberato var mjög öruggur í markinu. Maður leiksins að þessu sinni var Admir Kubat. Nú er Þróttur Reykjavík í efsta sæti deildarinnar með níu stig af níu mögulegum, KA og Víkingur Ólafsvík hafa bæði sjö stig í öðru til þriðja sæti, Fjarðabyggð, Þór Akureyri og HK eru með sex stig, Selfoss, Grindavík og Haukar með þrjú stig og Fram og Grótta eitt stig en BÍ/Bolungarvík er á botninum án stiga.
Auglýsing
Rúta frá Strætó fauk út af veginum við norðanvert Akrafjall um klukkan sjö í morgun. Þetta gerðist við Herdísarholt. Bístjórinn var einn í bílnum og slasaði ekki. Viðhviða mun hafa hrakið bílinn útaf veginum með þeim afleiðingum að hann fór að hluta yfir skurð eins og sést á meðfylgjandi mynd. Vindur hefur ítrekað valdið tjóni við norðanvert Akrafjall það sem af er þessu ári. Þetta er í annað sinn sem rúta fýkur þar út af veginum. Í fyrra skiptið var það við Æðarodda í umhleypingum nú eftir áramót. Þar var bílstjóri einnig einn á ferð og slapp með skrekkinn.
Meistarinn í Grundarfirði lauk loks upp hleranum á pylsuvagninum í hádeginu föstudaginn 15. maí. Enda virðist vorið loksins vera komið með smá hita og rigningu. Það gladdi gesti og gangandi að geta nælt sér í einn eða tvo Henrik af matseðli Meistarans eftir veturlanga bið. Þannig var að minnsta kosti stemningin hjá Hermanni Geir Þórssyni og Heimi Þór Ásgeirssyni sem gæddu sér á dýrindis kræsingum hjá Baldri Orra Rafnsyni eiganda Meistarans skömmu eftir opnun.
Auglýsing
Boða til íbúafundar um skólamál í BorgarfirðiHópur fólks í Borgarfirði hefur boðað til opins íbúafundar í félagsheimilinu Logalandi næstkomandi mánudagskvöld, annan í Hvítasunnu klukkan 20:30. Að sögn Þóru Geirlaugar Bjartmarsdóttur talsmanns íbúa er tilefni fundarins skýrsla vinnuhóps á vegum Borgarbyggðar um hagræðingaraðgerðir í rekstri skóla í sveitarfélaginu. Þar eru lagðar fram ýmsar leiðir til hagræðingar. Meðal annars er lagt til að Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgafjarðar verði lokað og börnum á svæðinu verði ekið í Grunnskóla Borgarness. Fleiri tillögur er sem ganga misjafnlega langt er að finna í skýrslunni og vísast í frétt hér á vefnum í gær í því samhengi. „Við ætlum að ræða um framkomnar tillögur á breytingu á skólastarfi á svæði Grunnskóla Borgarfjarðar og höfum boðið sveitarstjórn að mæta. Við skorum á alla íbúa sem vettlingi geta valdið að mæta og láta í ljós skoðanir sínar á þessu og taka þátt í umræðunum,“ sagði Þóra Geirlaug í samtali við Skessuhorn.
Sunnudagskvöldið 24. maí mun Bára Gísladóttir, tónsmiður og kontrabassaleikari, koma fram ásamt kammerhópnum Náttey í Vatnasafninu á Stykkishólmi. Fluttir verða tónleikarnir Ólík þök, en þeir innihalda ýmis verk fyrir kontrabassa með eða án rafhljóða. Á dagskrá eru sex verk eftir Báru frá árunum 2014-2015. Verkin eru samin fyrir mismunandi samsetningar klarinettu, saxófóns, kontrabassa og rafhljóða. „Í tónlistinni er leikið með framlengda hljóðheima og tækni ásamt samspili hljóðræns og sjónræns tjáningaforms. Verkin eru byggð á þökum mismunandi borga, en hugmyndin á bak við verkefnið kviknaði á Picasso safninu í Barcelona 2013 þegar Bára var að virða fyrir sér þakmyndir Picasso,“ segir í tilkynningu.
Pílagrímaganga frá Dölum í BorgarfjörðÍ tilefni þess að nú eru 100 ár liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt verður farið í Pílagrímagöngu frá Hvammi í Dölum yfir í Reykholt í Borgarfirði. Fetað verður í fótspor hinnar kristnu landnámskonu, Auðar djúpúðgu. Gangan sem um ræðir er sex dagleiðir og verður því farin í nokkrum hlutum. Fyrsti hlutinn verður farinn laugardaginn 30. maí kl. 10 frá Hvammi í Dölum í Hjarðarholt. Daginn eftir verður gengið frá Hjarðarholti yfir í Kvennabrekku. Laugardaginn 13. júní verður farið frá Kvennabrekku yfir í Reykjadal og á sunnudeginum þaðan yfir í Hvamm í Norðurárdal. Á mánudeginum 15. júní verður haldið áfram frá Hvammi yfir í Norðtungu í Þverárhlíð og að endingu verður gengið frá Norðtungu yfir í Reykholt þriðjuaginn 16. júní. Gengin gömul þjóðleið „Það er bæði spennandi að halda upp á þessi tímamót, 100 ára kosningaafmæli kvenna og tilvalið að minnast kristinna landnámskvenna í leiðinni. Við byrjum í Hvammi, á landnámsbæ Auðar djúpúðgu enda er hennar saga mjög áhugaverð og hún er sterk fyrirmynd fyrir íslenskar konur. Svo göngum við yfir í Borgarfjörðinn enda leikur þetta sögusvið stórt hlutverk á Sturlungaöld. Það voru miklar samgöngur milli Dala og Borgarfjarðar og farnar margar ferðir, þannig að við fetum þarna gamla slóð,“ segir Elínborg Sturludóttir prestur í Stafholti. Hún segir að ekki verði farið eftir Bröttubrekku, heldur gengin gömul þjóðleið um Sanddal. „Það eru margir sem þekkja þá fallegu leið og hafa farið hana ríðandi. Við endum svo í Reykholti 16. júní. Okkur finnst við hæfi að klára göngurnar áður en við fögnum 100 ára kosningaafmælinu,“ bætir Elínborg við. Andlegt ferðalag Hún segir að gangan sé pílagrímaferð en í þeim sé ekki bara ferðast frá einum stað til annars, heldur séu slíkar göngur líka andlegt ferðalag. Í göngunni verði hugleidd sagan og arfleifð kristinnar trúar og menningar og ekki síst áhrif kristinnar trúar á sjálfsmynd íslenskra kvenna. „Við ætlum að minnast allra þessara kvenna en auðvitað voru það bæði karlmenn og konur sem létu sig þetta kvenfrelsi varða og börðust fyrir því. Þetta hefði aldrei fengist í gegn ef ekki hefði verið fyrir karlmennina líka. En fyrst og fremst munum við beina sjónum okkar að þessari arfleifð. Við notum hana til að byggja okkur upp. Þarna göngum við og hugleiðum frelsisbaráttu. Hver einasta manneskja þarf í lífi sínu að berjast fyrir ákveðnu frelsi. Öll þráum við frelsi og það er svo margt sem getur fjötrað okkur, bæði ytri aðstæður og innri rimlar sem koma í veg fyrir að við blómstrum,“ segir Elínborg. Hún segir að pílagrímagöngur séu oft notaðar til uppbyggingar og í þeim takist fólk á við ýmsar tilvistarspurningar og hlúa að því sem gerir lífið innihaldsríkara. Í þeim sé kyrrð og fólk fái tóm til að hugsa og fara inn á við. „Allir sem hafa áhuga á arfleifð kristinnar trúar og frelsisbaráttu íslenskra kvenna eru hjartanlega velkomnir í gönguna. Hver hluti göngunnar er 11 - 25 kílómetrar og við gerum ráð fyrir að gengið verði í fjóra til sex tíma hvern dag. Við leggjum alltaf af stað klukkan 10 að morgni og erum því búin um miðjan dag,“ segir Elínborg að endingu. Nánari upplýsingar um gönguna er að finna á www.pilagrimar.is og hjá: elinborg.sturludottir@kirkjan.is
Ásmundur Einar Daðason, annar þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, er kominn í leyfi frá þingstörfum vegna veikinda. Að sögn Þórunnar Egilsdóttur þingflokksformanns glímir Ásmundur Einar við alvarlegar magabólgur og að leyfi þingmannsins sé að læknisráði. Tilkynnt var við upphaf þingfundar í gær að Anna María Elíasdóttir varaþingmaður taki sæti Ásmundar Einars næstu daga. Ásmundur greindi sjálfur frá veikindum sínum í viðtali við DV þar sem fjallað var um uppköst hans í flugvél þegar nokkrir þingmenn í utanríkismálanefnd Alþingis fóru í opinberum erindagjörðum ytra.
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Auglýsing
Fréttasafn
Auglýsing
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is