Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Lágnætti. Fyrsti Óðinsdagur í Heyönnum
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hvernig líst þér á samruna Íslands og Noregs í eitt ríki?
Blaðið
Smáauglýsingar

2ja herb íbúð til leigu

Falleg 2ja herb íbúð í Engihjalla 19, Kópavogi til leigu á kr. 150.000 á mán með hússjóð og hita. L...
Færð á vegum
Kjalarnes 02:40  NNV 1  10°C
Akrafjall 02:40  ANA 9  10°C
Hafnarfj. 02:40  ANA 7  11°C
Vatnaleið 02:40  NNV 4  6°C
Hraunsm. 02:40  NA 5  12°C
Fróðárh. 02:40  NV 10  9°C
Brattabr. 02:40  N 6  5°C
Holtav.h. 02:40  N 10  4°C
Laxárd.h. 02:40  NNA 10  4°C
Svínad. 02:40  NNA 5  5°C
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
Sláttur í gangi á Svarfhóli í Stafholtstungum. Ljósm. Ásgeir Yngvi Ásgeirsson.
Bændur á Vesturlandi eiga margir mikið af óslegnum túnum enda hefur þurrkur verið afar takmarkaður allt frá því um þjóðhátíðardaginn. Í júlímánuði hafa víða einungis verið 4 eða 5 þurrir dagar og sjaldnast að þeir hafi legið tveir saman. Nú er hins vegar þurrkur í landshlutanum og því spáð að hangi þurr fram að föstudegi. Því er svo spáð að lægð fari yfir vestanvert landið á föstudag og fram á laugardag en þá stytti aftur upp og geri þurrk framyfir helgi. Bændur slá því tún sín nú hver sem betur getur og freista þess að ná að þurrka grasið og verka í þokkalegt fóður. Jörð er þó afar blaut eftir miklar rigningar og dæmi um að hreinlega sé ófært um tún og algengt að menn festi vélar á þeim. Nú sígur vatnið hins vegar úr jörðu og þá er ekkert annað að gera en slá í gríð og erg.
Leikmaður knattspyrnuliðs Sindra á Höfn, sem fæddur er 1998, var í dag dæmdur í 12 mánaða keppnisbann vegna líkamsárásar á Hellissandi við lok leiks Sindra og Snæfellsness í þriðju deildinni fyrr í þessum mánuði. Aganefnd KSÍ dæmdi í málinu. Leikmaður Snæfellsness hlaut höfuðáverka við árásina og var fluttur með þyrlu á sjúkrahús. Hann mun ná sér að fullu aftur.
Auglýsing
Vilja átak til að hreinsa Englendingavík og færa til fyrra horfsHópur fólks í Borgarnesi hefur tekið höndum saman og hyggst beita sér fyrir að hreinsað verði og fegrað í Englendingavík í Borgarnesi. Fyrsti hreinsunardagur verður núna á fimmtudaginn klukkan 16. „Víkin hefur látið á sjá á undanförnum árum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Í stað sandstrandar hefur grjót úr bílastæði sem var hróflað upp fyrir nokkrum árum dreifst um með vetrarbriminu og er það fjandsamlegt berum yljum. Fyrir nokkrum áratugum var einnig tekið talsvert af sandi úr víkinni,“ segir í tilkynningu frá hópnum, en í forsari fyrir hann eru þau Þorleifur Geirsson, Arinbjörn Hauksson, Ingibjörg Hargrave og Bjarni Johansen. Þau atriði sem hópurinn vill að verði framkvæmd sem fyrst til hreinsunar á víkinni eru eftirfarandi: Fenginn verði hópur sjálboðaliða með hrífur og hjólbörur til að hreinsa ströndina. Fenginn verði vinnuvél til að moka upp grjótinu og því ekið burt. Grjóturðinni á svæðinu verði mokað burtu og stærra og þyngra grjóti sem stenst vetrarveðrin raðað í staðinn. Eða hlaðinn kantur í áframhaldi og í sama stíl og gamla bryggjan. Þegar hreinsun og lagfæringu er lokið verði sandi sem of mikið er af í firðinum sunnan bæjarins ekið í víkina og honum dreift þar. Settur verði upp vatnskrani við víkina. „Fyrsta skrefið er að fá sjálboðaliða til að mæta í fjöruna með hrífur og hjólbörur. Sveitarstjórnin hefur gefið loforð sitt um að hjálpa til með vélavinnu við verkið. Við vonumst til að sem flestir vilji gefa sér tíma og hjálpa til við hreinsunina. Hreinsað verður fimmtudaginn 31. júlí og byrjað klukkan 16:00.“ Upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir veita: Tolli í síma 661-7173, Bjarni í síma 893-8511, Ingibjörg í síma 862-1399 eða Arinbjörn í síma 899-6166. Einnig er hægt að senda fyrirspurn á englendigavik@email.com
Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, birti nýverið á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands útskýringar á sólarkísil og mengunarhættu af honum. Þar bendir Þorsteinn á að fréttir hérlendis að undanförnu um umhverfislega hættu af væntanlegu ferli sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga séu staðhæfulausar og byggðar á misskilningi. Þar hafi verið ruglað saman frumframleiðslu kísils úr jarðefnaeldsneyti og Siemens ferlinu (sem fer fram víða um heim) við grænar framleiðsluaðferðir kísils og þess ferlis sem Silicor notast við. Þorsteinn Ingi telur að komu sólarkísilverksmiðju Silicor á Grundartanga beri að fagna sem miklu skrefi í átt til framfara þar sem ál- og kísilframleiðslulandið Ísland verður í fararbroddi í heiminum í að útvega efni sem minnka munu kolefnisspor mannkyns. Hér að neðan er grein Þorsteins Inga Sigfússonar í heild sinni: Hvað er sólarkísill og hvernig getur sólarorka sparað mannkyni gríðarlega losun CO2 í andrúmsloftið frá kola-, olíu- eða gasorkuverum? Ég hef verið að vasast í orkumálum lengi og einnig rannsakað melmi eins og ál- og kísilmelmi og meira að segja útskrifað hóp meistara- og doktorsnema í þessum fræðum. Til að útskýra ofangreint þarf fyrst að fjalla svolítið um orku jarðefnaeldsneytis. Eitt tonn af kolum er mishreint, í því geta verið óhreinindi eins og í brúnkolum o.s.frv. Besta svarið mitt hér væri að segja eitt og hálft til þrjú tonn af CO2 losni við að brenna eitt tonn af kolum og breyta því í raforku. Lélegri kol losa minna en þeim mun meira af óhreinindum og aukaefnum. Hvað mikla raforku getur þetta tonn af kolum framleitt? Sama svar, fer eftir hreinleika. Við skulum reikna með nokkuð hreinum kolum og segja 2500 kWh af rafmagni. Tvö þúsund og fimm hundruð kílówattstundir. Þær eru framleiddar með því að brenna kolin, láta þau sjóða vatn í gufu og knýja rafala. Þá kemur spurningin um form jarðefnaeldsneytisins: Olía er orkuríkust fyrir hvert tonn – kol leysa úr læðingi svona 95% af varmaorku olíunnar; náttúrugas inniheldur svona 73%. Höldum áfram að reikna og höldum okkur við kol. Allt í lagi. Segjum nú að Kínverji nokkur í Beijing vilji breyta úr kolaraforku í sólarorku og setja sólarflögur á þakið hjá sér. Hann þarf um 2500 kWh af rafmagni árlega. Hann ræðst þá á það markmið að spara eitt tonn af kolum á hverju ári. Þar að auki er mengunin í CO2 um tvö til þrjú tonn á ári. Þá erum við ekki að reikna önnur efni sem kolin bera út í andrúmsloftið við bruna. Þau eru til dæmis brennisteinsdíoxíð SO2 , kvikasilfur o.fl. Hvað með að nýta sólarorku, virkja sólskinið með því að setja sólarkísilflögur á þakið. Þær eru stundum kallaðar sólarrafhlöður en hafa ekkert með að geyma rafmagn eins og rafhlöðurnar sem við kaupum í útvarpstækið eða vasaljósið. Sumir kalla þetta sólarhlöð, sem er fallegt orð. Sólarkísill framleiðir rafmagn með svokölluðum ljósrafhrifum. Þegar ljós skín á efni eins og t.d. kísil þá losna rafeindir í kíslinum og eru tiltækar til þess að þær séu leiddar inn í rafrás, t.d. ljósaperu. Á bak við ljósrafhrifin er heillandi eðlisfræði rafeinda og róteinda í efnum. Albert Einstein skýrði fyrstur ljósrafhrifin og hlaut Nóbelsverðlaunin fyrir! Hvar finnum við kísil til þess að nota í sólarkísilflögur? Næst okkur í náttúrunni er kvartz. Það er mikið af því í íslensku bergi og sumsstaðar á jörðunni er bergið næstum því hreint kvartz. Það er gert úr kísiloxíði, sameindum úr kísl (Si) og súrefni (O2). Efnaformúla kvartz er SiO2. Kísill til nota í sólarkísilflögur þarf að vera nokkuð hreinn. Kvartz er ekki hægt að nota beint. Með því að beita tækni svipaðri þeirri sem notuð er hjá Elkem á Grundartanga er hægt að einangra kísil úr kvartzi. Notast er við rafmagn og kolarafskaut í stórum ofni þar sem kolskautið gefur frá sér kolefnisatóm og hreimmir súrefni frá kvartzinu og til verður CO2. Hversu mikið CO2 sparast þá með því að nota sólarkísil í stað rafmagns frá jarðefnaeldsneyti? Hægt er að reikna út hversu mikið CO2 fylgir sólarkísilflögum. Þá þarf að reikna allan ferilinn, frá því að kvartz er numið, það flutt til kísilverksmiðju og úr því unninn kísill til nota í sólarkísilflögur. Nú bætist við eitt ferli í viðbót: Hreinsun kísilsins til þess að gera hann hæfan í sólarkísilflögu. Við þurfum ekki tandurhreinan kísil. En hingað til hefur kísill verið hreinsaður með því að notast við svokallaðan Siemens feril. Hann felur í sér að kísillinn fer í gegnum marga svokallaða fasa; eitt veifið er hann fast efni, annað veifið er hann í gasformi – þannig verður til fyrirhafnarmikið ferli sem krefst töluverðrar orku. Vandinn með Siemens ferilinn hefur t.d. verið tilurð SiCl4 kísil tetraklórs, sem erfitt og kostnaðarsamt hefur verið að eyða eða endurvinna. Venjulega er rætt um að ferlið leiði til að um 30 grömm af CO2 leysist út fyrir á hverja kílówattstund sem úr sólarkísilflögunni fæst. Nú skulum við hverfa aftur til sólarflögunnar í Beijing. Ársnotkunin var um 2500 kWh og búast mátti við allt að 3 tonnum á ári af CO2 frá hinni venjulegu kolatengdu raforku. Sólarflagan á hinn bóginn myndi hafa valdið 75 kg losun. Þetta eru spennandi tölur. Notandinn gæti haldið áfram og krafist enn minna magns af CO2 í sólarflögum. Það er heilmikil áskorun sem ég reyni nú að svara. Í fyrsta lagi væri æskilegt að í kísilverksmiðjuna sem upprunalega vinnur kísil úr kvartzi væri notuð græn raforka, sem kæmi úr endurnýjanlegum orkulindum eins og Landsvirkjun útvegar hér á landi. Í öðru lagi væri æskilegt að hreinsun kísilsins á næsta stigi væri gerð með aðferðum sem nýta minni orku og nota minna af leysiefnum o.þ.h. en hin hefðbundna aðferð sem áðan var nefnd. Bent hefur verið á að hin hefðbundna aðferð við að hreinsa kísil leiddi til þess að til verður kísill sem er betur hæfur í rafrásir tölvanna en endilega í sólarflögur. Í því tilviki þarf ekki nærri eins hreinan kísil. Hægt er að lifa með óhreinindi (sem eiga uppruna í kvartzinu) í miklu meira hlutfalli. Siemens ferlið sem þekktast er í heiminum í dag leiðir til ofurhreins kísils sem nota má í rafrásir og örrásatækni nútímans. Mér finnst Siemens ferlið bæði klunnalegt tæknilega og mjög mengandi þegar um er að ræða sólarkísil sem þarf ekki sama hreinleika og rafrásir. Aðferðir Silicor eru einfaldari og umhverfisvænni Fyrir nokkrum árum frétti ég af því að hópur málmfræðinga og efnisfræðinga væri að reyna að einfalda þetta ferli. Þá voru kynnt einkaleyfi á ferli þar sem menn notfæra sér einstaka málmeðlisfræði blanda af kísil og áli. Leysni kísils í áli hefur mjög einfalda eðlisfræði og unnt er að leysa kísil sem mettaður er með óhreinindum eins og t.d. bór, þannig að álið taki bór í sig og leiði til þess að kísillinn verður hlutfallslega hreinni. Nógu hreinn til þess að geta þjónað sem efni sem ber ljósrafhrifin sem þörf er fyrir í sólarflögum! Slík tækni er grundvöllurinn að aðferð Silicor fyrirtækisins sem hyggur á starfsemi hér á landi. Reikna má út að ferlið þurfi aðeins um 1/3 af orku Siemens ferlisins. Kísillinn er settur í bráðið ál og það notað til að hremma ýmis óhreinindi sem enn sitja í honum eins og bór og fosfór. Afurðirnar eru þannig hreinni kísill og svo álmelmi eða blanda sem innheldur ýmis aukaefni en getur samt farið á heimsmarkað sem ákveðin tegund áls í útsteypingar. Sólarkísillinn í dæminu okkar frá Beijing myndi , framleiddur á Íslandi leiða til minnsta kolefnisfótspors á jörðunni. Umræða um umhverfislega hættu af ferli sólarkísilverksmiðju Silicor á Grundartanga eru byggðar á misskilningi Fréttir hér á landi að undanförnu um umhverfislega hættu af ferli Silicor eru staðhæfulausar og byggðar á misskilningi. Líklega er upphafsmaður fréttarinnar að rugla saman frumframleiðslu kísils úr jarðefnaeldsneyti og Siemens ferlinu (sem fram fer víða um heim) við grænar framleiðsluaðferðir kísils og Silicor ferlisins. Ég tel að komu Silicor til landsins beri að fagna sem miklu skrefi í átt til framfara þar sem ál- og kísilframleiðslulandið Ísland verður í fararbroddi í heiminum í að útvega efni sem minnka munu kolefnisspor mannkyns. Þorsteinn Ingi Sigfússon
Auglýsing
Helgi Guðmundsson rithöfundur á Akranesi hefur skrifað tvær rafbækur sem nýverið komu út hjá emma.is. Þetta eru bækurnar Marsibil og Leópold sirkusljón hrellir borgarbúa. Hin fyrrnefnda er skáldsaga sem hentar ungum sem öldnum, en hin síðarnefnda er ærslafull barnabók. Báðar ættu þær að henta vel í sumarfríum. Bækurnar komu á sínum tíma út hjá Máli og menningu. –fréttatilk.
Gamalt máltæki segir að fall sé fararheill. Flest okkar þekkja það en tökum misjafnlega alvarlega. Tvær áhafnir í Kaffi Króks-rallýi, sem haldið var af Bílaklúbbi Skagafjarðar um síðustu helgi, eru líklegast mjög sannfærðar um sannleiksgildi þessa máltækis eftir óhapp sem varð fyrir upphaf keppni, þar sem tveir bílar sem ökumenn fóru á í skráningarferðir fyrir keppni, skullu saman og eru gjörónýtir. Skemmst er frá því að segja að þeir TímOn félagar, Baldur Haraldsson úr Skagafirði og Aðalsteinn Símonarson úr Borgarnesi unnu Kaffi-Króks rallýið þrátt fyrir þetta óhapp og leiða áfram á Íslandsmótinu. Forskot þeirra var 1;47 mínútur á þá Sigurð Braga og Ísak í öðru sæti en þriðju eru þeir félagar Henning Ólafsson og Árni Gunnlaugsson úr AIFS (Suðurnes). Keppnin var hin skemmtilegasta; hröð, blaut, holótt og hæðótt. 13 áhafnir hófu keppni á föstudagskvöldið, þar af voru fimm fyrrum Íslandsmeistarar. Þrjár áhafnir luku ekki keppni. Næst á dagskránni er svo Alþjóðarallý BÍKR. Voru í leiðarnótnaferð Keppendurnir Guðni Freyr Ómarsson og Einar Hermannsson voru mættir til undirbúnings á fimmtudagsmorguninn rétt eins og þeir Baldur og Aðalsteinn. Héldu báðar áhafnir upp á Mælifellsdal en keppendur hafa þá venju í undirbúningi að fara akstursleiðir fyrir keppni í þeim tilgangi að útbúa leiðarnótur. Leiðarnótur eru lýsing aðstoðarökumanns á því hvernig aka skuli leiðina; beygja til hægri, vinstir, aka hratt, hægt, upp, krappar beygjur og svo framvegis. Aðstoðarökumaðurinn les nóturnar síðan í akstri á þann hátt að ökumaður veit hvað framundan er og hvernig skuli aka. Miklu skiptir að aðstoðarökumaðurinn geti lesið á þeim hraða sem ekið er því ökumaður þarf í blindni að geta treyst lýsingunni, vont er t.d. að stama þegar lesið er; „hægri kröpp beygja“ eftir að komið er að viðkomandi beygju. Baldur og Aðalsteinn lögðu aðeins fyrr af stað og voru því að aka Mælifellsdalinn til baka en þeir Guðni Freyr Ómarsson og Einar Hermannsson voru rétt að hefja undirbúninginn á uppeftir leið. Báðar áhafnir voru einbeittar að útbúa nóturnar og á blindhæð einni mættust bílarnir. Þrátt fyrir að hraði hafi verið í meðallagi varð árekstri ekki afstýrt. Ökumenn slösuðust þó ekki alvarlega, fengu mar og smávægilegar tognanir en skoðunarbílarnir voru sóttir af dráttarbíl og verður ekki ekið framar. Þrátt fyrir þetta mættu allir fjórir mennirnir galvaskir til leiks á föstudaginn, harðákveðnir í að láta engan bilbug á sér finna.
Knattspyrnufélag ÍA tók þátt á alþjóða knattspyrnumótinu Rey-cup sem fór fram í Laugardalnum um síðustu helgi. Náði félagið frábærum árangri. Á mótinu keppa leikmenn í þriðja og fjórða flokki karla og kvenna. Í ár voru 82 lið skráð til leiks og þar af voru þrettán erlend lið á mótinu. Alls sendi ÍA fjögur lið á mótið, tvö í fjórða flokki kvenna og tvö í þriðja flokki karla. Besti árangur Skagamanna að þessu sinni náði A-lið fjórða flokks kvenna en stúlkurnar urðu meistarar mótsins í sínu flokki. B-lið fjórða flokks kvenna náði einnig mjög góðum árangri og endaði í fjórða sæti. ÍA strákarnir voru sömuleiðis ofarlega í sínum flokkum og endaði B-lið þriðja flokks í öðru sæti og A-lið í fjórða sæti. Á myndinni er A-lið ÍA í fjórða flokki kvenna sem varð meistari í sínum flokki á Rey Cup. Á myndinni eru í aftari röð frá vinstri: Ágúst Valsson (þjálfari), Arna Berg Steinarsdóttir, Karen Rut Finnbogadóttir, Ólöf Gunnarsdóttir, Ásta María Búadóttir, Þórhildur Arna Hilmarsdóttir, Elísa Eir Ágústsdóttir, Elísa Svala Elvarsdóttir(þjálfari). Neðri röð frá vinstri: Birta Margrét Björgvinsdóttir, Karen Þórisdóttir, Katrín María Óskarsdóttir, Fríða Halldórsdóttir, Bergdís Fanney Einarsdóttir. Ljósm. Gunnar Viðarsson.
Haldnir verða orgel- og söngtónlekar í Reykholtskirkju í kvöld, þriðjudaginn 29. júlí kl. 20. Leif Martinussen organisti og tónskáld, Ole Reuss Schmidt organisti og kórstjórnandi og Svafa Þórhallsdóttir söngkona flytja orgelverk og verk eftir Leif Martinussen og einning verða fluttar nokrar einsöngsperlur. Leif Martinussen starfar sem organisti og lauk kantorprófi frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann er hefur meðfram starfi sínu sem organisti er hann virkt tónskáld og hafa verk hans verið flutt víða í Evrópu og Ameríku. Hann semur aðallega tónverk fyrir orgel, kór og söng við kirkjulega teksta. Ole Reuss Schmidt lauk kantorprófi frá Tónlistarháskólanum í Esbjerg. Hann starfar í dag sem organisti og kórstjórnandi. Einnig er hann virkur einleikari og starfar sem tónskáld. Ole Reuss hefur farið víða með kórana sína, bæði í Evrópu og Suður- og Norður- Ameríku. Svafa er fædd í Reykjavík. Hún lauk blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Nú leggur Svafa stund á söng við Konunglega Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Hún starfar sem tónlistarkennari og er virkur einsöngvari m.a. í kirkjum í Kaupmannahöfn.
Fréttasafn
Leit á vefnum
Auglýsing
Auglýsing
Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is