Auglýsing
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hvernig spári þú að 2015 verði fyrir þig fjárhagslega?
Áskrift að Skessuhorni
Smáauglýsingar

Ljósakrossar.

Til sölu hinir vönduðu díóðuljósakrossar á leiði í ýmsum litum. Nánari upplýsingar í síma: 898-9253 ...
Færð á vegum
Kjalarnes 04:10  A 6  -1°C
Akrafjall 04:00  A 2  1°C
Hafnarfj. 04:10  NNA 1  -5°C
Vatnaleið 04:10  SA 3  -4°C
Hraunsm. 04:10  A 4  -2°C
Fróðárh. 04:00  ASA 5  -4°C
Brattabr. 04:10  S 2  -4°C
Holtav.h. 04:10  NNV 3  -5°C
Laxárd.h. 04:10  ASA 5  -4°C
Svínad. 04:10  NA 5  -2°C
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
Það eru ýmsar heimildir fyrir margbreytilegum nöfnum jólasveinanna og mörg þeirra heyrum við ekki mikið af í dag. Sjálfsagt er þó að rifja upp nokkur þeirra en það eru til dæmis: Baggalútur, Bjálfansbarnið, Dúðdadurtur, Faldafeykir, Flotgleypir, Flórsleikir, Kleinusníkir, Litlipungur, Lútur, Moðbingur, Reykjasvelgir, Sledda, Smjörhákur, Svartiljótur, Svellabrjótur, Tútur, Þambaraskelfir og Örvadrumbur. Í dag væri við hæfi að fá sér bjúgu í kvöldmatinn, til heiðurs Bjúgnakræki, en hann á samkvæmt öllu að vera lagður af stað til byggða. Hann var fimur klifurköttur og prílaði upp í rjáfrin og stal hrossabjúgum til að éta. Níundi var Bjúgnakrækir, brögðóttur og snar. Hann hentist upp í rjáfrin og hnuplaði þar. Á eldhúsbita sat hann í sóti og reyk. Og át þar hangið bjúga sem engan sveik.
Á þessum síðasta föstudegi í aðventu, tveim dögum fyrir vetrarsólstöður, er stilla og heiðskýrt víða um Vesturland. Dagurinn nýtist vel þeim sem standa í framkvæmdum og eru að kappkosta að ljúka sem mestu áður en jólahátíðin gengur í garð. Ekki er algengt að unnið sé að endurnýjun utanhússklæðninga á íbúðarhúsum á þessum árstíma, en verki virtist miða vel við þetta hús við Jaðarsbraut á Akranesi í dag þegar ljósmyndari Skessuhorns var á ferðinni.
Auglýsing
Lokað á skrifstofu Skessuhorns alla jólavikunaSkrifstofa Skessuhorns verður lokuð dagana 22. til 28. desember vegna jólaleyfa. Starfsfólk kemur til vinnu mánudaginn 29. desember og verður þá lokið við vinnslu á blaði sem gefið verður út þriðjudaginn 30. desember. Efni og auglýsingar í það blað þarf að senda á tölvupóstfangið skessuhorn@skessuhorn.is Neyðarsími yfir hátíðirnar vegna tilkynninga hér á vef Skessuhorns er 894-8998.
Íbúar á jarðhæð hússins númer 4 við Hrannarstíg í Grundarfirði geta átt von á öðruvísi jólahátíð í ár en alla jafnan. Það er von á barni í lok ársins, það gæti orðið jólabarn og það gæti líka orðið nýársbarn, kannski fyrsti Vestlendingur ársins? Það var þó ekki af þessari ástæðu sem ábending barst um að gott væri að spjalla við Elsu Fanneyju Grétarsdóttur fyrir jólablaðið. Heldur hitt að hún þykir mjög drífandi í samfélaginu, er listhneigð manneskja og meðal annars mjög áhugasöm um starf víkingafélagsins Glæsis í Grundarfirði. Þegar blaðamaður Skessuhorns var á ferðinni var kominn svolítill jólabragur á Grundarfjarðarbæ, með Kirkjufellið trónandi í nágrenninu, en nokkur svali samt þennan dag eins og verið hefur í vetrarríkinu að undanförnu. Það var hins vegar hlýlegt að koma inn í anddyrið á Hrannarstíg 4 þar sem sheffer tíkin Pæja tók á móti blaðamanni af einstakri kurteisi og ljúfleika eins og hefðarfrú sæmir. Hún kann sig vel hún Pæja. Þarna rétt innan við var svo yngsti fjölskyldumeðlimurinn, hinn 19 mánaða gamli Benjamín Æsir að leika sér að dótinu sínu. „Já það er nú ekki vesenið í kringum hana Pæju, enda fær hún líka að gista á hóteli þegar við þurfum að bregða okkur í burtu. Það er að segja á hundahótelinu hjá tengdó, Önnu Dóru og Jóni Bjarna hérna inn á Bergi,“ segir Elsa. Markús maður Elsu er líka heima, hann er sjómaður, vélstjóri á togaranum Farsæli. Það viðraði ekki til að fara á sjó þarna um morguninn en átti að skoða hvort það gæfi þegar liði á daginn. Við Elsa ákváðum að setjast í eldhúskrókinn og spjalla þar. Kaffið var tilbúið á könnunni og blaðamaður hafði orð á því að þetta hljóti að vera afskaplega gott kaffi, lyktin af því sé svo góð. „Já þetta er grýlukaffi eins konar jólastemmari, kanilkaffi og á að vera eitthvað voðalega fínt.“ Í Skessuhorni vikunnar má lesa skemmtilegt spjall við Elsu Fanneyju um listina, víkingastarfið í Grundarfirði og sitthvað fleira.
„Ég er fædd í Göngustaðakoti í Svarfaðardal 20. júlí árið 1930. Þetta var lítið kot inn í Svarfaðardalnum, afi minn og amma áttu heima þar. Þarna fæddist ég en svo vorum við komin til Dalvíkur þegar jarðskjálftarnir miklu urðu og fyrstu minningar mínar eru frá þessum jarðskjálfum sem ollu skemmdum í Svarfaðardal og á Dalvík árið 1934. Þótt ég hafi ekki verið nema fjögurra ára þá nam barnsminnið eitthvað af þessum miklu atburðum og umtal fólksins lengi á eftir hefur kannski orðið til þess að þetta greyptist í minni mitt. Ég var þögult barn en hlustaði vel á það sem fullorðnir sögðu. Pabbi minn, Jón Björnsson var frá Göngustaðakoti en mamma, Ágústa Guðmundsdóttir, var frá Hólmavík og þangað fluttum við svo en allt mitt móðurfólk var þar. Móðurafi minn var Guðmundur frá Bæ,“ segir Sigríður Jónsdóttir sem áttatíu og fjögurra ára gömul býr nú á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi, Brákarhlíð. Þar hafði hún líka starfað lengi áður en hún flutti þangað inn. Í Skessuhorni vikunnar má lesa viðtal við Sigríði þar sem hún lýsir sínum bernskujólum og stiklar á stóru í lífi sínu.
Menningarverðlaun Akraness voru afhent í áttunda sinn fyrir skömmu. Þau hafa verið veitt einstaklingi eða hópum sem þótt hafa skarað fram úr í menningarlífi á Akranesi og að þessu sinni hlaut Heiðrún Hámundadóttir viðurkenninguna. Það kom fáum á óvart að Heiðrún fengi slíka viðurkenningu enda vel að henni komin. Hún hefur undanfarin ár varið miklum tíma til að vinna með ungu fólki á Akranesi, kveikja áhuga þess fyrir tónlist og hvetja það áfram til góðra verka. Heiðrún er tónmenntakennari í Brekkubæjarskóla en kennir einnig við Tónlistarskólann á Akranesi og Fjölbrautaskóla Vesturlands. Hún hefur því komið víða við í tónlistaruppeldi Akurnesinga. Blaðamaður Skessuhorns settist niður með Heiðrúnu á aðventunni og fékk að kynnast henni aðeins. Sótti víða í sönginn Heiðrún er fædd og uppalin á Skaganum. Þar ólst hún upp hjá ömmu sinni og afa, þeim Karli Ragnarssyni, sem nú er látinn, og Ernu Benediktsdóttur. Hún segist snemma hafa sótt í tónlistina. „Ég var á dagheimili í Akurgerði, þar sem mikið var sungið. Reyndar sótti ég svo í allt þar sem var sungið. Ég fór í KFUM og KFUK og skátana. Ég fór meira að segja á samkomur hjá hvítasunnusöfnuði því þar var mikið sungið og föndrað. Svo var ég auðvitað í kór líka,“ segir hún um upphafið á tónlistaráhuganum. Heiðrún fór snemma í tónlistarskólann og lærði þar á blokkflautu og svo píanó. „En píanóið var greinilega ekki mitt hljóðfæri. Ég hætti því í smá tíma í tónlistarskólanum en lærði svo á klarínett þegar ég varð eldri og fór þá í lúðrasveitina. Þegar ég var ellefu ára kenndi amma mér fyrstu gripin á gítar og á unglingsárunum fór ég í hljómsveitarstúss.“ Viðtalið við Heiðrúnu í heild sinni má lesa í Skessuhorni vikunnar.
Við tölum oft um áhrifamenn í þjóðfélaginu. Gjarnan eru það stjórnmálamenn hvort sem er á hinu háa Alþingi eða í sveitarstjórnum. Reyndar líka einstaka verkalýðsforingi eða jafnréttisfrömuður. Rithöfundar hafa varla verið nefndir til áhrifamanna, jafnvel ekki Nóbelsskáldið sjálft. Um þessar mundir fagnar að minnsta kosti einn rithöfundur landsins stórafmæli. Það er Ólafsvíkingurinn Þorgrímur Þráinsson sem er núna að senda frá sér tvær bækur, unglingabókina Hjálp og barnabókina um Núa og Níu sem er skrifuð út frá myndum Línu Rutar Wilberg. Þorgrímur hefur átt velgengni að fagna sem unglinga- og barnabókahöfundur og reyndar einnig í störfum sínum. Bækurnar hans eru orðnar 28. Þorgrímur hefur lagt sig eftir að skrifa fyrir þann aldurshóp sem fáir eru að skrifa fyrir, frá fermingaraldrinum og upp að fullorðinsárunum. Þorgrímur er gömul fótboltahetja úr Víkingi Ólafsvík og Val. Hann er líka þekktur fyrir störf sín fyrir unglinga og að lýðheilsumálum. Í hugum margra er hann án efa tákngervingur um það jákvæða og heilbrigða. Þorgrímur hefur á tímum verið umtalaður jafnvel umdeildur, ekki síst á því árabili sem hann var framkvæmdastjóri Tóbaksvarnarráðs, 1996-2004. Örugglega hefur enginn maður haft jafn mikil áhrif á tóbaksvenjur Íslendinga og Þorgrímur Þráinsson. Hann var einn þeirra sem m.a. kom því í gegn að reykingar voru aflagðar á veitingahúsum í landinu. „Það er ennþá þannig að ef ég mæti fólki sem er að reykja þá ber það við að setja vindlinginn fyrir aftan bak,“ segir Þorgrímur og hlær. Þorgrímur Þráinsson er einn af áhrifamönnunum í þjóðfélaginu. Spjallað er við unglingabókahöfundinn og Ólsarann Þorgrím Þráinsson í jólablaði Skessuhorns sem kom út fyrr í vikunni.
Snjóþekja eða hálka er á flestum vegum á Vesturlandi samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni nú rétt í þessu. Þungfært er um Bröttubrekku.
Auglýsing
Fréttasafn
Leit á vefnum
Auglýsing
Auglýsing
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is